Stök frétt

Höfundur myndar: Gottskálk Friðgeirsson

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að starfsleyfi fyrir olíubirgðastöð Olíudreifingar ehf. á Ísafirði. Undanfarin ár hefur olíubirgðastöð Olíudreifingar ehf. verið staðsett við Suðurgötu og Mjósund á Ísafirði. Sú stöð uppfyllir ekki kröfur í reglugerð en umhverfisráðuneytið hefur gefið út undanþágu með ýmsum skilyrðum fyrir stöðina á meðan að verið er að ganga frá nýrri stöð en hún gildir þó ekki lengur en til 31. mars 2013 eða þar til nýja stöðin getur tekið við hennar hlutverki. Nýja stöðin verður staðsett á lóð á svæði sem kallað er Mávagarður og tilheyrir nýrri hafnaraðstöðu á Ísafirði.

Lagt er til að heimilt verði að taka á móti og geyma í stærsta geymi allt að 1510 m3 af olíu, þó ekki bensín eða rokgjarnar olíutegundir. Þá verði heimil móttaka á úrgangsolíu.

Við gerð tillögunnar var leitað til Heilbrigðisnefndar Vestfjarða og fór heilbrigðisfulltrúi yfir drög að tillögunni.

Bent var á að mengunarslys vegna slíks reksturs kæmu til vegna flutninga og yfirfyllingar. Þá var talið óæskilegt að takmarka stöðina þannig að ekki yrði tekið við bensíni. Bent var á slysahættu sem skapast af flutningi eldsneytis á landi í því sambandi. Lagt var til að grein 2.3 um löndun olíu yrði breytt þannig að hún tæki á yfirfyllingunni.

Vegna ábendingarinnar var skerpt á því í tillögunni að koma skuli í veg fyrir að geymar yfirfyllist (í grein 2.3). Ekki var hins vegar sótt um geymslu bensíns af hálfu rekstraraðila en rétt er að geta þess að geymsla bensíns er háð ákvæðum reglugerðar nr. 252/1999, um varnir við losun rokgjarnra lífrænna efnasambanda (VOC), við geymslu á bensíni og dreifingu þess frá birgðastöðvum til bensínstöðva. Samkvæmt reglugerðinni þarf að gera tilteknar ráðstafanir til að takmarka losun rokgjarnra lífrænna efnasambanda í umhverfið.

Tillagan mun liggja frammi ásamt umsóknargögnum á skrifstofu Ísafjarðarbæjar á tímabilinu 10. ágúst til 5. október 2012. Hér að neðan má finna auglýsta tillögu Umhverfisstofnunar, umsóknargögnin og deiliskipulagið.

Öllum er frjálst að gera athugasemdir við starfsleyfistillöguna en þær skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun (Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík). Frestur til að skila inn ábendingum er til 5. október 2012.