Stök frétt

Flutningur tegunda út fyrir sín náttúrulegu heimkynni hefur aukist mjög síðustu áratugi. Flestar þessara tegunda hafa ekki teljandi áhrif á lífríki í nýjum heimkynnum. Örfáar verða þó ríkjandi eða ágengar og valda verulegum breytingum á starfsemi vistkerfa. Þannig geta þær komið í stað innlendra tegunda, dreift úr sér og ógnað því lífríki sem fyrir er. Mjög erfitt getur reynst að snúa þessari þróun við. Af ágengum tegundum plantna hér á landi eru það aðallega tvær sem hafa verið áberandi, skógarkerfill og alaskalúpína.

Umhverfisstofnun hefur undanfarin ár unnið að því að sporna gegn frekari dreifingu þessara tegunda innan friðlýstra svæða en Umhverfisstofnun fer með yfirumsjón stærsta hluta friðlýstra svæða í landinu. Starfsmenn Umhverfisstofnunar ásamt sjálfboðaliðum á hennar vegum og öðrum samstarfsaðilum bæði frá sveitarfélögum og ríki, hafa þannig beitt hinum ýmsu aðferðum til að fjarlægja og hefta útbreiðslu tegundanna innan margra friðlýstra svæða.

Dæmi um friðlýst svæði þar sem unnið hefur verið markvisst að upprætingu, heftingu og skráningu ágengra framandi tegunda má t.d. nefna: friðland að Fjallabaki, Reykjanesfólkvang, Rauðhóla, Vífilsstaðavatn, Fossvogsbakka, Laugarás, Valhúsahæð, Víghóla, Hlið, Hornstrandafriðlandið, Vatnsfjörð, þjóðgarðinn Snæfellsjökul, Vatnshornsskóg, Kasthúsatjörn, Geitland, ströndin við Stapa og Hellnar, verndarsvæði Mývatns og Laxár, Jökulsárgljúfur, Skaftafell í Vatnajökulsþjóðgarði, Hólmanes, fólkvanginn í Neskaupstað og Álfaborg á Borgarfirði eystri.

Að frumkvæði umhverfisráðherra starfar nú stýrihópur skipaður Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðslu Íslands sem hefur það hlutverk að finna leiðir til að draga úr neikvæðum áhrifum alasalúpínu og skógarkerfils á náttúru Íslands. Lögð er áhersla á miðhálendið og friðlýst svæði.

Hægt er að kynna sér málefnið betur á heimasíðunni Ágengar tegundir – Alaskalúpína og skógar­kerfill ásamt því að fræðast um aðgerðir og fylgjast með útbreiðslu tegundanna.