Stök frétt

Höfundur myndar: Sigurður Ingason

Umhverfisstofnun hefur borist tilkynning frá Fiskeldi Austfjörðum ehf. um áform um breytingar á rekstri sbr. grein 1.4. í starfsleyfi fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur nú starfsleyfi til framleiðslu á 4.000 tonnum af þorski og 4.000 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Berufirði. 

Breytt áform fyrirtækisins felast í að ala árlega 6.000 tonn af laxi og 2.000 tonn af regnbogasilungi. Fer fyrirtækið fram á að mál er varðar útgáfu starfsleyfis fyrirtækisins verði endurupptekið á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og gerðar verði breytingar á skilyrðum 1.1. og 1.2. í starfsleyfinu. 

Fiskeldi Austfjörðum ehf. tók starfsleyfið yfir þann 19. júní 2012 en leyfið var gefið út til HB Granda hf. 6. júní 2011. Fram kemur í erindi fyrirtækisins að breytt áform þess feli ekki í sér breytingar á forsendum starfsleyfisins. Um sé að ræða sama eldismagn, eldisstaðsetningar séu þær sömu, fóðurmagn verði óbreytt og rekstarfyrirkomulag sömuleiðis óbreytt.

Áform þessi hafa þegar verið borin undir Skipulagsstofnun m.t.t matsskyldu. Niðurstaða stofnunarinnar er, sbr. bréf stofnunarinnar frá 4. september sl. að þessi áform séu ekki tilkynningarskyld samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Umhverfisstofnun hefur tekið framangreinda beiðni til skoðunar og óskar eftir að ábendingar vegna erindisins, ef einhverjar eru, verði sendar stofnuninni fyrir 25. september nk. Tekin verður ákvörðun í málinu innan viku frá þeim degi, nema ef fram koma einhver atriði við úrvinnslu málsins sem þarfnast nánari skoðunar við.

Tengd skjöl