Stök frétt

Nýlega var haldin Norræn ráðstefna um innleiðingu nýrrar löggjafar um stjórn vatnamála og framkvæmd þeirra. Á ráðstefnuninni komu saman helstu sérfræðingar á sviði verndunar vatns frá Norðurlöndunum, Írlandi og Skotlandi.

Bornar voru saman aðferðir og fjármagn sem Norðurlöndin hafa við innleiðingu þessa nýja stjórnkerfis og reynslu Íra og Skota við sambærilega vinnu.  Við samanburðinn kom í ljós að Íslendingar hafa mun færri starfsmenn í málaflokknum, en Svíar og Finnar flesta. Svíar hafa einnig mesta fjármagnið en Íslendingar það minnsta. Fyrirfram er vitað að ástand vatna á Íslandi er mun betra en á hinum Norðurlöndunum.  

Finnar og Svíar eru komnir lengst við flokkun strandsjávar og álagsgreiningu hans í Eystrasalti. Norðmenn eru ennþá að vinna við að greina eiginleika strandsjávarins hjá sér, enda eiga þeir lengstu strandlengju allra Norðurlandanna. Á Íslandi er vinnan við eiginleikagreiningu strandsjávarins rétt byrjuð. Svo virðist þó sem flokkun strandsjávarins við Íslandsstrendur verði mun einfaldari en nágrannalandanna.

Fjallað var um aðgerðir til að minnka áhrif frá virkjunum (laxastigar og aðrir fiskivegir) og aðferðir til að minnka áhrif frá mengunaruppsprettum, m.a. með því að fjarlægja mengað set.

Stefnt er að því að framsetningu upplýsinga um vatn hérlendis verði notendavæn og aðgengileg almenningi. Horft er til samstarfs Norðmanna og Svía í þeim efnum.

Fjallað var um vistfræðilega flokkun vatna. Ísland er með mun fábreyttara lífríki og umhverfi vatns er mun einfaldara en í nágrannalöndunum.  Ákveðið var að stofna norrænan verkefnishóp um flokkun vatna, þar sem bæði Írland og Skotland er boðið að taka þátt, enda deila þessi lönd sameiginlegu hafsvæði sem er Norður-Atlantshafið. 

Á ráðstefnunni kynntu fulltrúar Íslands íslenskan vatnaveruleika, vatn frá jöklum til sjávar, jarðhitaauðlindina, vatnsaflsvirkjanir og stjórnun þeirra, jarðhræringar og flóð af þeirra völdum ásamt einkennum lífríkis íslenskra vatna.

Ráðstefnan heppnaðis afar vel og fór fram dagana 26. til 28. September. Hún var sú fimmta í röð sambærilegra ráðstefna á Norðurlöndunum. Ráðstefnuna sóttu um 75 manns, þar af um 55 erlendir gestir. Ráðstefnan var haldin á Grand hótel í Reykjavík, sem er svansmerkt hótel. Ráðstefnan stóð yfir í tvo og hálfan dag, þar sem meirihluti tímans fór í vinnubúðir og umræður.