Stök frétt

Vegna fréttar á vef Alcoa.

Starfsmenn Umhverfisstofnunar, sem sóttu um styrki í Scandinavian/American foundation, afþökkuðu þann 3. október síðastliðinn að þiggja styrkina. Það var gert vegna þess hversu sterk tengsl voru á milli Alcoa og styrksins sem veittur var sem gæti valdið hagsmunaárekstri fyrir Umhverfisstofnun. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með Alcoa á Íslandi.

Í kjölfar ábendingar starfsmanna Umhverfisstofnunar til stjórnenda, þann 20. september, kom í ljós við nánari skoðun að sterkari tengsl voru á milli Alcoa og þess sjóðs sem veitti styrkinn en talið var í upphafi. Í ljósi þess að starfsmenn höfðu þegar sótt um styrkinn persónulega var ákveðið að leita óháðs álits. Því var strax óskað álits Samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna. Niðurstöður nefndarinnar bárust 28. september síðastliðinn. Þar kom fram: „Lagt er til að Umhverfisstofnun óski eftir því að verkefnið verði fjármagnað með öðrum hætti og séð verði til þess að Alcoa komi ekki við sögu.”

Starfsmenn Umhverfisstofnunar sóttu um styrkina á eigin vegum.

Styrkirnir voru til þess að sækja námskeið um rekstur friðlýstra svæða og þjóðgarða. Þrátt fyrir að þeir starfsmenn komi ekki beint að eftirliti með mengandi starfsemi taldi stofnunin mögulegan hagsmunaárekstur vegna viðkomandi styrks óásættanlegan. Námskeiðið sem um ræðir hefði reynst starfsmönnum mjög vel í starfi.

Umhverfisstofnun telur mjög mikilvægt að fram komi að stofnunin tekur öll tengsl við hagsmunaaðila mjög alvarlega og gætir þess í hvívetna að ekki komi upp hagsmunaárekstur sem geti veikt stöðu stofnunarinnar í því að gæta almannahagsmuna.