Stök frétt

Höfundur myndar: Sigurður Ingason

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Dýrfisk ehf. fyrir fiskeldi í Dýrafirði.

Dýrfiskur ehf. sækir um starfsleyfi til að framleiða árlega allt að 2000 tonn af regnbogasilungi og/eða laxi í Dýrafirði. Umsóknin er til komin vegna aukningar á fiskeldinu. Skipulagsstofnunar kvað þann úrskurð upp 2009 vegna fyrirspurnar á matsskyldu, að sjókvíaeldi á allt að 2.000 tonnum af regnbogasilungi og/eða laxi í Dýrafirði sé ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í tilkynningu um áformin var gert ráð fyrir einu eldissvæði utan við Haukadalsbót sunnan megin í firðinum. Það er á þessu svæði sem nú er gert ráð fyrir að gefið verði út starfsleyfi.

Umhverfisstofnun óskaði tvívegis eftir því við umsækjanda að umsókn hans yrði endurbætt og kom hún því í þremur hlutum. Endanleg umsókn barst í febrúar s.l. Stofnunin leitaði samstarfs við Heilbrigðisnefnd Vestfjarða og Orkustofnun við gerð tillögunnar og má sjá umsagnir þeirra með þessari frétt. Rétt er að taka það fram að á því stigi var gert ráð fyrir þremur eldissvæðum. Þar sem aðeins eitt þeirra hafði verið tilkynnt vegna fyrirspurnar um matsskyldu hjá Skipulagsstofnun var tekin um það ákvörðun að halda sig eingöngu við það svæði.

Í tillögunni er meðal annars gert ráð fyrir að umhverfisþættir í nágrenni kvíanna séu vaktaðir og sérstaklega kopar ef rekstraraðili notar heimild til notkunar á kvíum sem litaðar eru með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð. Þá er þéttleiki í kvíum takmarkaður eins og í öðrum nýlegum starfsleyfum fyrir kvíaeldi. Nánari lýsing á málsmeðferð eru meðfylgjandi í sérstakri greinargerð sem fylgir fréttinni.

Tillagan mun liggja frammi ásamt umsóknargögnum á skrifstofu Ísafjarðarbæjar, Stjórnsýsluhúsinu, á tímabilinu 8. nóvember 2012 til 3. janúar 2013. Einnig eru gögnin aðgengileg á heimasíðu Umhverfisstofnunar á sama tíma.

Ekki er áformað að boða til almenns kynningarfundar (borgarafundar) um tillöguna á auglýsingatíma nema eftir því verði sérstaklega óskað.

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 3. janúar 2013.