Stök frétt

Skipum sem koma til hafnar á Íslandi ber að skila úrgangi í land. Í hverri höfn er skylt að viðunandi móttökuaðstaða sé fyrir þann úrgang sem gera má ráð fyrir að þangað berist.

Umhverfisstofnun hefur að undanförnu unnið að því í samvinnu við hafnaryfirvöld að hafnir á landinu vinni áætlanir um móttöku og meðhöndlun úrgangs. Markmiðið er að tryggja viðunandi móttökuaðstöðu í höfnum og draga úr losun úrgangs í sjó frá skipum. Í áætlununum eru upplýsingar um þá móttökuaðstöðu sem er í höfnum, tegund úrgangs sem tekið er á móti, gjaldtöku og hver sé ábyrgur fyrir framkvæmd viðkomandi áætlunar.

Árið 2010 gerði Siglingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA) úttekt á hafnaraðstöðukerfi á Íslandi m.t.t. þess hvort það uppfyllti kröfur Evrópusambandsins. Siglingaöryggisstofnun Evrópu gerði nokkrar athugasemdir, meðal annars þær að engar áætlanir hafna um móttöku og meðhöndlun úrgangs hafi verið staðfestar.

Umhverfisstofnun fór fram á það við 44 rekstraraðila hafna að skila inn áætlunum um móttöku og meðhöndlun úrgangs fyrir samtals 82 hafnir. Viðbrögð voru almennt góð en þó brugðust ekki allir við.  Þeim rekstraraðilum hafna sem í júlí sl. höfðu ekki skilað inn áætlun  var sent bréf um að Umhverfisstofnun áformaði að veita rekstraraðila áminningu. Var þessum aðilum veittur frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og til að skila inn áætlun. Í september sl. veitti Umhverfisstofnun síðan áminningu þeim níu rekstraraðilum sem þrátt fyrir fyrri tilmæli höfðu enn ekki sent inn áætlun.

Umhverfisstofnun hafa nú borist áætlanir er varða 67 hafnir. Lokið er við yfirferð þeirra og hafa 26 áætlanir er taka til alls 38 hafna verið staðfestar hjá stofnuninni. Áætlanir fyrir 28 hafnir eru í endurskoðunarferli. Komið hefur í ljós að ekki er þörf á áætlun um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa fyrir þrjár hafnir á upphaflega listanum, þ.e. Landeyjahöfn, Haganesvíkurhöfn og Garðshöfn. Herjólfur er eina skipið sem siglir til Landeyjahafnar, en öllum úrgangi er skilað í land í Vestmannaeyjum. Í Garðshöfn og Haganesvíkurhöfn er engin starfsemi.

Hér fyrir neðan er samantekt á stöðu mála varðandi skil áætlana. Fjöldi áætlana er minni en fjöldi hafna þar sem heimilt er að gera sameiginlega áætlun fyrir stærri svæði með þátttöku hverrar hafnar að því tilskildu að gerð sé sérstaklega grein fyrir hverri höfn í áætluninni. Því getur verið fjallað um fleiri en eina höfn í einstökum áætlunum.

Áætlanir um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa (staða þann 13. desember 2012)

Staða áætlana

Fjöldi áætlana

Fjöldi hafna

Fjöldi rekstraraðila/Athugasemdir

Staðfestar áætlanir

26

38

19 rekstraraðilar

Áætlanir í staðfestingarferli

 

28

18 rekstraraðilar, áætlun í endurskoðun

Áætlun ekki skilað inn

 

13

7 rekstraraðilar

Ekki þörf á áætlun

 

3

Landeyjahöfn, Haganesvíkurhöfn, Garðshöfn

Samtals áætlanir

 

82

 

Staðfestar hafa verið áætlanir um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa fyrir eftirtaldar hafnir/hafnasamlög:

Blönduóshöfn, Borgarfjarðarhöfn, Faxaflóahafnir, Fjarðabyggðarhafnir, Grindavíkurhöfn, Grundarfjarðarhöfn, Hafnarfjarðarhöfn, Hafnasamlag Norðurlands, hafnir í Dalabyggð (Búðardalshöfn og Skarðsstöð á Skarðsströnd), Hornafjarðarhöfn, Hvammstangahöfn, Kópavogshöfn, Reykjaneshafnir, Skagafjarðarhafnir, Stykkishólmshöfn, Vopnafjarðarhöfn, Vogahöfn, Þorlákshöfn, smábátahöfn í Seltjarnarnesbæ. 

Eftirtaldar hafnir hafa skilað inn áætlun um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa en þær þarfnast endurskoðunar áður en þær eru staðfestar:

Sandgerðisbær, Reykhólahreppi (Reykhólahöfn og höfnin í  Flatey í Breiðafirði), Hafnir Vesturbyggðar, Tálknafjarðarhöfn, hafnir Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkurhöfn, hafnir í Súðavíkurhöfn, Hólmavíkurhöfn, Skagastrandarhöfn, hafnir Dalvíkurbyggðar (Dalvíkurhöfn, Árskógshöfn og Hauganeshöfn), hafnir Norðurþings (Húsavíkurhöfn, Kópaskershöfn og Raufarhafnarhöfn), Þórshafnarhöfn, Breiðdalshöfn, Djúpavogshöfn, Seyðisfjarðarhöfn, Vestmannaeyjahöfn, Miðsandshöfn og Litlasandshöfn.

Eftirtöldum aðilum var veitt áminning: 

Blönduósbæ, Bolungarvíkurkaupstað, Fjallabyggð, Langanesbyggð, Seltjarnarnesbæ, Strandabyggð, Sveitarfélaginu Garði, Sveitarfélaginu Skagströnd og Þingeyjarsveit.

Tengt efni