Stök frétt

Umhverfisstofnun barst tilkynning kl. 12.00 frá Landhelgisgæslu Íslands um skipsstrand við Skoreyjar. Vegna mögulegrar hættu á olíumengun frá skipinu hefur stofnunin virkjað viðbragðsáætlun og vettvangsstjóri er á leið á svæðið. Bráðamengunarbúnaður verður sendur á svæðið til notkunar ef þörf krefur. Svæðið á Breiðafirði er viðkvæmt og því nauðsynlegt að reyna að tryggja að sem minnst áhrif verði á lífríkið.

Stofnunin hefur haft samband við Heilbrigðisnefnd Vesturlands og hafnarstjóra vegna þessa.

Uppfært kl. 16.15

Starfsmaður Umhverfisstofnunar er kominn á strandstað og hefur skoðað aðstæður. Skipið situr nú á þurru og er ekki kominn leki að því, enga brák að sjá við skipið. Verið er að meta næstu skref og skipuleggja viðbrögð ef þörf er á.

Uppfært kl. 22:40

Þórsnes II er nú laust af strandstað við Skoreyjar. Vel gekk að draga skipið á flot, engin ummerki voru um að gat hefði komið á olíutanka og ekki gætti olíusmits frá skipinu. Í því skyni að geta brugðist við ef þörf krefði hafði Umhverfisstofnun reiðubúna olíuvarnargirðingu og búnað til að hreinsa olíu en ekki reyndist þörf á að nota búnaðinn. Aðgerðum Umhverfisstofnunar á vettvangi er því lokið.

Flotgirðing til taks á vettvangi.

Um olíumengun og viðbrögð

Grundvallaratriði í viðbrögðum við olíumengun á sjó (og vatni) er að olía flýtur á vatni og rekur undan straumi og vindum. Þá er rétt að hafa ofarlega í huga að léttari olíur (einkum bensín, dísel og aðrar gasolíur) gufa upp og blandast í vatnsbolinn. Viðbrögðum skal hagað í samræmi við það og með öryggi starfsfólks og annarra í nágrenninu í huga.

Olíuflekkur á sjó er fljótur að breytast og dreifist hratt bæði fyrir áhrif vinds og strauma. En það er fleira sem hefur áhrif á olíuna. Á myndinni hér að neðan má sjá hvað verður um olíu á sjó, og er þá ekki meðtalin sú olía sem berst á land eða smyrst á fugla og aðrar lífverur í sjó.


Tími sem líða má frá því að mengunaróhapp verður þar til brugðist er við er breytilegur og hefur hitastig sjávar og gerð olíunnar (þykkt) mikil áhrif þar á. Almennt er gert ráð fyrir að bensín sem fer í sjóinn sé nánast horfið á innan við sólarhring og hefur uppgufun og blöndun þar mest áhrif á. Eftir því sem olían er þykkri þeim mun lengri tími er til aðgerða og þykkustu svartolíur endast árum og áratugum saman. Myndin að neðan sýnir hvernig rúmmál olíuflekks breytist með tíma og líka hversu lengi olíuflekkir á sjó eru að hverfa. Sjá má að þynnstu olíurnar (bensín o.þ.h., merkt Group 1) eru horfnar á innan við sólarhring.  Gasolía o.þ.h. (merkt Group 2) eykur rúmmál sitt töluvert fyrst við það að blandast við sjó (olíuþeyta) en hverfur fljótt og á viku til hálfum mánuði er hún horfin. Næsti flokkur (merkt   Group 3) á við um þunnar svartolíur og sést að rúmmál þeirra a.m.k. þrefaldast fyrst við það að blandast sjó en fljótlega  dregur úr rúmmáli þeirra en eru horfnar á innan við ári. Þykkustu svartolíur eyðast mjög hægt og eru til vandræða í mörg ár (group 4).

Myndin sýnir hversu lengi mismunandi olíur eru að eyðast í sjó, group 1 eru bensín og þvílík efni, group 2 eru gasolíur og þvílík efni, group 3 eru þunnar svartolíur og þvílík efni og group 4 eru þykkustu svartolíurnar.

Myndin sýnir hversu lengi mismunandi olíur eru að eyðast í sjó, Group eru bensín og þvílík efni, Group 2  eru gasolíur og þvílík efni, group 3 eru þunnar svartolíur og þvílík efni og group 4 eru þykkustu svartolíurnar. 


Myndin af ofan er skjáskot úr vákorti af svæðinu í kringum Skoreyjar. Kortið sýnir m.a. leirur (gulmerktar) og dýralíf (punktar og grænt svæði). Skoða má vákortið á nasarm.is en það geymir upplýsingar fyrir hafsvæðið í Norður-Atlantshafi.