Stök frétt

Námskeið verður haldið á vegum Umhverfisstofnunar þann 14. nóvember nk. um gerð áhættumats á sund- og baðstöðum. Námskeiðið fylgir eftir útgáfu á Öryggishandbók fyrir sund- og baðstaði sem m.a. fjallar um gerð áhættumats. Höfundur öryggishandbókarinnar og kennari á námskeiðinu er Herdís Storgaard. Námskeiðið er einkum ætlað forstöðumönnum sund- og baðstaða og eftirlitsaðilum og efnistök eru gerð áhættumats. 

Áhættumat er hluti af innra eftirliti sund- og baðstaða og ber rekstraraðili ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi gesta, sem felur í sér almennt áhættumat og áætlun um forvarnir. Í Öryggishandbók fyrir sund- og baðstaði er að finna upplýsingar um gerð áhættumats og þau öryggisatriði sem taka þarf tillit til við gerð þess. Áhættumat skal liggja fyrir eigi síðar en 1. janúar 2014 skv. reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, með síðari breytingum. 

Námskeiðið mun fara fram á Grand hótel í Reykjavík (Háteigur B) fimmtudaginn 14. nóvember kl. 09:00-16:00. 

Verð: 10.000 kr (kaffi og meðlæti innifalið). 

Skráning fer fram á vefsíðu Umhverfisstofnunar og mun skráning standa yfir til 8. nóvember nk. 

Námskeiðið er byggt á efni öryggishandbókarinnar og eru þátttakendur því beðnir um að hafa eintak af öryggishandbókinni meðferðis, rafrænt eða útprentað. Öryggishandbókina má nálgast á vef Umhverfisstofnunar innan fárra daga (þáttakendur verða látnir vita við útgáfu).