Stök frétt

Markmið veiðistjórnunar á rjúpu er að veiðar verði sjálfbærar þannig að komandi kynslóðir geti stundað veiðar. Veiðistjórnun snýst því að vissu leyti um það langtímasjónarmið að vernda veiðistofna til framtíðar. Undanfarin ár hefur fyrst og fremst verið lögð áhersla á þrjú atriði í veiðistjórnun. Sóknardögum hefur verið fækkað verulega, sölubann á rjúpu og rjúpuafurðum var komið á og biðlað var til veiðimanna um að sýna hófsemi á rjúpnaveiðum. 

Af þessum þremur veiðistjórnunaraðferðum er það líklegast sölubannið og hvatningarátak um hófsemi sem hefur skilað árangri. Um 70-80% veiðimanna veiða innan við fjóra daga óháð því hvort leyfilegt er að veiða 47 eða 9 daga. Sóknardagafjöldinn breytist lítið á milli ára. Mjög fáir leyfilegir veiðidagar draga því ekki jafn mikið úr heildarveiðinni og ætla mátti þegar þeim var fyrst fækkað verulega árið 2005. 

Náttúrufræðistofnun Íslands metur veiðistofn rjúpu á hverju ári. Eftir 2005 þegar sölubann var sett á veiða veiðimenn að jafnaði 10% áætlaðs veiðistofns óháð leyfilegum veiðidagafjölda. Fyrir tilkomu sölubannsins var hlutfallið um 25-30%. Því ber að mestu að þakka sölubanninu og hvatningarátaki um hófsemi fremur en fækkun leyfilegra veiðidaga. Veiðarnar samkvæmt veiðiskýrslum endurspegla áætlaða stofnstærð afar vel frá árinu 2005. Veiðitölur eru því ekki síðri mælikvarði en vöktun sem byggist á talningum þegar horft er aftur í tímann. Veiðiskýrslur gefa ennfremur til kynna að hófsemi veiðimanna sé meiri þar sem hlutfall þeirra sem veiða færri en 15 rjúpur fer hækkandi. Eftir 2005 hefur rjúpnaveiðin verið um 10% af áætluðum veiðistofni óháð leyfilegum veiðidagafjölda. Um 97% fylgni er á milli heildarfjölda sóknardaga og metins veiðistofns rjúpu.

Línurit yfir fjölda rjúpna og fjölda sóknardaga frá 2005 til 2012

Fylgnin á milli heildarfjölda sóknardaga og metins veiðistofns rjúpu er 97% sem verður að teljast afar mikil fylgni. Þessi mikla fylgni gefur sterkar vísbendingar um að þegar stofn mælist stór þá haldi veiðimenn frekar til veiða en þegar stofn mælist lítill. Eðlilega hefur fréttaflutningur af ástandi rjúpnastofnsins áhrif á áhuga rjúpnaveiðimanna á veiðum. Þegar umfjöllun um gott ástand rjúpnastofnsins er mikil í fjölmiðlum er líklegt að menn haldi frekar til rjúpnaveiða en þegar fréttir af ástandi stofnsins eru neikvæðar.