Stök frétt

Tíðni eftirlits hjá mengandi starfssemi fer skv. reglugerð 786/1999 um mengunareftirlit. Fyrirtækjum er skipt í fimm flokka. Fyrirtæki í 1. flokki fá eftirlit tvisvar sinnum á ári, fyrirtæki í 2. og 3. flokki fá eftirlit einu sinni á ári, fyrirtæki í 4.flokki fá eftirlit annað hvert ár og fyrirtæki í 5. flokki fá eftirlit eftir þörfum. 

Á árinu 2014 hefur Umhverfisstofnun eftirlit með um 100 fyrirtækjum um allt land. Umhverfisstofnun framselur eftirlit með 17 fyrirtækjum til Heilbrigðiseftirlits Austurlands. Upplýsingar um fyrirtæki sem fá eftirlit hjá Umhverfisstofnun er að finna á heimasíðu stofnunarinnar ásamt niðurstöðum úr eftirliti síðustu ára.

Í reglubundnu eftirliti ársins 2014 er m.a. lögð áhersla á: 

  • Fyrirvaralaus eftirlit en Umhverfisstofnun áætlar að fara í a.m.k. tíu slík eftirlit á árinu 2014. Forsendur fyrir fyrirvaralausu eftirliti eru m.a. kvartanir eða eftirfylgni . Fyrirvaralaus eftirlit eru umfram reglubundið eftirlit og tekur Umhverfisstofnun sérstakt gjald fyrir þau. Fyrirtæki sem fá frávik geta alltaf búist við að fulltrúar Umhverfisstofnunar komi í fyrirvaralaust eftirlit til að kanna m.a. framkvæmd viðbragða við frávikum í eftirlitsskýrslum. 
  • Innra eftirlit – gæðaeftirlit fyrirtækja. Almennar kröfur í starfsleyfum um innra eftirlit og gæðamarkmið. Fara yfir og kynna lágmarksviðmið til að fara eftir. 
  • Skráningar og hvernig þær eru framkvæmdar sem hluti af innra eftirliti 
  • Hjá urðunarstöðum: móttaka og skráning úrgangs. 
  • Fara yfir viðbragðsáætlanir vegna mengunar hafs og stranda. Viðbragðsáætlun skal byggja á áhættumati sem fyrirtæki gera. Samtök atvinnulífsins hafa gefið út leiðbeiningar fyrir fyrirtæki um áhættumat og viðbragðsáætlanir . 
  • Á árinu verður farið í sérstakt ársáætlunarverkefni um ástand og virkni stærri reykhreinsivirkja hjá stóriðju og eftirlit með þeim. 
  • Þá verður áfram áhersla lögð á frárennslismál fyrirtækja. 
  • Undirbúning venjubundins eftirlits – fyrirtækjum verði tilkynnt um eftirlit og umfang þess með amk. viku fyrirvara. 
  • Umhverfisstofnun hyggst koma á umbunarkerfi fyrir fyrirtæki sem standasta kröfur laga, reglugerða og starfsleyfi. Áhersla verður lögð á að draga fram hvað fyrirtæki eru að gera sem þykir til fyrirmyndar.