Stök frétt

Lokið hefur verið við gerð hávaðakorta og aðgerðaáætlana fyrir stóra vegi og þéttbýlissvæði á Íslandi. Hávaðakort sýnir niðurstöður hávaðaútreiknings fyrir ákveðin svæði, s.s. vegi. Ábyrgðaraðilar vega og svæða skulu í kjölfarið leggja fram áætlun um úrbætur m.t.t. hávaðaviðmiða. 

Mörk hljóðstigs við húsvegg íbúðarhúsnæðis á íbúðarsvæði eru 55 dB(A) Leq. Niðurstöður hávaðakortlagningar (áfangi 1-3) sýna að hávaði geti verið yfir 55 dB við allt að 34.900 íbúðir eða hjá allt að 70.000 íbúum. Þessar niðurstöður gefa vísbendingu um hvar hávaði kunni að vera yfir mörkum. Þó ber að líta til þess að hávaðakortin voru reiknuð m.v. fjögurra metra hæð en Íslensk reglugerð um hávaða kveður á um að viðmiðunarhæð utan við húsvegg sé í tveggja metra hæð og viðmiðunarmörk innanhúss eru við lokaða glugga. Mælingarnar kunna því að vera misvísandi fyrir lágreista byggð. Víða hefur nú þegar verið gripið til ráðstafana til þess að draga úr hávaða sem ekki er tekið tillit til í þessum útreikningum. Til að aðgerðaáætlanir væru í takt við regluverk um hávaða á Íslandi voru þær unnar út frá útreikningum í tveggja metra hæð.

Verkefnið var unnið skv. ákvæðum Evróputilskipunar sem innleidd var árið 2005. Vegagerðin og sveitarfélög kortlögðu hávaða á stórum vegum með umferð meiri en 3 milljón ökutækja á ári og á þéttbýlissvæðum með fleiri en 100.000 íbúa m.t.t. áhrifa frá hávaða á íbúðabyggð. Verkefnið var unnið í þremur áföngum, í fyrsta áfanga voru stórir vegir með umferð meiri en sex milljón ökutækja á ári kortlagðir, í öðrum áfanga voru stórir vegir með umferð 3-6 milljón ökutækja á ári og þéttbýlissvæði kortlögð og í þriðja áfanga voru unnar aðgerðaáætlanir, en hluti þess ferlis var m.a. að auglýsa drög að áætlunum fyrir almenning og gefa kost á að gera athugasemdir við drögin. 

Hávaðakort og aðgerðaáætlanir eru aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar.

Hávaðakortlagning og aðgerðaáætlanir veita íbúum landsins betri yfirsýn yfir aðstæður í þeirra íbúðahverfi og gerir stjórnvöldum kleift að gera sér betur grein fyrir hávaðauppsprettum, þörf á aðgerðum og forgangsröðun verkefna. Auk þess er Ísland nú samanburðarhæft við önnur Evrópuríki og gögnum er skilað til ESA. 

Upplýsingar frá Evrópulöndum fara inn á svokallaða NOISE vefsjá. Þar getur almenningur skoðað hávaðastig víðs vegar um Evrópu, s.s. frá umferð ökutækja og flugvéla, lestum og iðnaðarsvæðum. NOISE vefsjáin gerir íbúum kleift að vera meðvitaðari um umhverfi sitt og nýta upplýsingarnar við val á t.d. íbúðarhúsnæði og sumarleyfisstað. Ísland er eitt „grænu“ landanna í vefsjánni þar sem hávaðamengun er hvað minnst.