Stök frétt

Íbúar Evrópu búa í dag við hreinna loft og vatn, minni úrgangur endar í landfyllingum og jarðgæði eru endurunnin í auknum mæli. Hins vegar er Evrópa langt því frá að ná markmiðum góðrar búsetu innan takmarkana plánetunnar fyrir árið 2050. Þetta er meðal þess sem kemur út í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu um ástand og horfur í umhverfismálum álfunnar næstu fimm árin. 

Þótt nýting náttúruauðlinda sé með betri hætti en áður eyðum við enn auðlindagrunninum sem við treystum á í Evrópu og um allan heim. Okkur stendur enn mikil ógn af vandamálum eins og hnignun líffræðilegs fjölbreytileika og loftslagsbreytingum. 

Stefnur Evrópusambandisns á sviði umhverfis- og loftslagsmála hafa haft í för með sér umtalsverðan ávinning og bætt umhverfi og lífskjör á sama tíma og þær hafa stuðlað að nýsköpun, atvinnusköpun og hagvexti. Þrátt fyrir þessar framfarir stendur Evrópa enn frammi fyrir ýmis konar viðvarandi og vaxandi umhverfisvandamálum. Lausnir þeirra krefjast grundvallarbreytinga á þeim framleiðslukerfum og neysluháttum sem eru jafnan rót umhverfisvandamála. 

Skýrslan kemst að þeirri niðurstöðu að þótt full framkvæmd á núverandi stefnum sé mjög mikilvæg, séu hvorki þær umhverfisstefnur, sem þegar eru til staðar, né efnahagslegar og tæknidrifnar úrbætur á skilvirkni, fullnægjandi til þess að uppfylla sýn Evrópu 2050.