Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur í samstarfi við stjórn fólkvangsins Teigarhorns unnið að gerð verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir fólkvanginn Teigarhorn og náttúruvættið geislasteina í landi Teigarhorns í Djúpavogshreppi. Tillaga að verndar- og stjórnunaráætlun fyrir svæðin tvö er hér með lögð fram til kynningar.

Hluti jarðarinnar Teigarhorns var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Friðlýsingin var endurskoðuð árið 2013 með auglýsingu um friðlýsingu geislasteina í landi Teigarhorns. Sama ár var einnig undirrituð friðlýsing fólkvangsins Teigarhorns í Djúpavogshreppi, en fólkvangurinn nær yfir alla jörðina Teigarhorn.

Markmiðið með friðlýsingu geislasteina í landi Teigarhorns er að varðveita og viðhalda náttúrulegu ástandi svæðisins, einkum m.t.t. þeirra jarðlaga sem eru rík af geislasteinum. Enn fremur er það markmið friðlýsingarinnar að tryggja möguleika á rannsóknum á jarðmyndunum svæðisins, sérstaklega geislasteinum.

Markmiðið með friðlýsingu jarðarinnar Teigarhorns sem fólkvangs er að tryggja útivistarsvæði í fögru umhverfi þar sem gestum gefst tækifæri til að kynnast sérstakri náttúru svæðisins og sögu jarðarinnar Teigarhorns, en auk þeirra náttúruminja sem finnast á svæðinu eru þar einnig merkar menningarminjar.

Markmiðið með gerð verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir svæðin tvö er að leggja fram stefnu um verndun svæðanna og hvernig viðhalda skuli verndargildi þeirra þannig að sem mest sátt ríki um. Sérstaða svæðisins er mikil og með áætluninni er stefnt að því að standa vörð um og efla jákvæða ímynd svæðisins.

Frestur til að skila athugasemdum er til fimmtudagsins 13. ágúst 2015. Hægt er að skila inn athugasemdum eða senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík, umhverfisstofnun@umhverfisstofnun.is.

Nánari upplýsingar veitir Hildur Vésteinsdóttir, hildurv@umhverfisstofnun.is, eða í síma 591-2000. 

Tengd gögn