Stök frétt

Á morgun, miðvikudaginn 15. júlí, hefjast veiðar á hreintörfum og standa þær til 15. september en veiðar á hreinkúm hefjast 1. ágúst og standa til 20. september. Umhverfisstofnun hefur nú sent út öll tarfaleyfi til þeirra sem eru með öll sín mál tilbúin en til að fá leyfið þurfa menn að hafa greitt veiðileyfið, staðist skotpróf og vera búnir að endurnýja veiðikort sitt. Veiðleyfin á kýrnar verða send út á næstu dögum.

Þeir veiðimenn sem ekki hafa enn útvegað sér leiðsögumann á hreindýraveiðum eru hvattir til að gera það hið fyrsta. Umhverfisstofnun vill jafnframt hvetja veiðimenn til að bíða ekki með veiðarnar fram til síðustu vikna veiðitímans því veður getur hamlað veiðum jafnvel svo dögum skiptir og skapast þá mikil örtröð á þeim veiðidögum sem gefast.

Að lokum viljum við benda á að út er komin reglugerð nr. 607/2015 um breytingu á reglugerð nr. 486/2003 um stjórn hreindýraveiða, með síðari breytingum en hér má sjá reglugerðina ásamt stofnreglugerðinni og við hvetjum veiðimenn að kynna sér hana.