Stök frétt

Með stöðugri fjölgun mannkyns verður sjálfbær nýting auðlinda sífellt mikilvægara viðfangsefni í samfélagi okkar.  Við byggjum einungis þessa einu jörð og auðlindir hennar, sem eru ekki óþrjótandi, eru grundvöllur okkar lífsgæða.  Eitt af því sem við getum gert til að draga úr auðlindanotkun er að fara betur með úrganginn sem fellur til hjá okkur.  Það sem í dag er úrgangur var jú eitt sinn hluti af þeim takmörkuðu auðlindum sem jörðin hefur að geyma.  Með því að endurvinna og endurnýta úrganginn okkar þá höldum við honum í hringrás hráefna og drögum úr nauðsyn þess að nota sífellt nýjar auðlindir til að uppfylla þarfir okkar í daglegu lífi.  Eitt það mikilvægasta sem gert er til að stuðla að endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs er að safna einstökum úrgangsflokkum sérstaklega, þ.e. að koma í veg fyrir að úrgangsflokkar blandist því blöndun mismunandi úrgangsflokka dregur úr möguleikum til endurvinnslu og endurnýtingar.

Til að stuðla að sérstakri söfnun úrgangsflokka og að endurvinnslu og endurnýtingu hafa verið sett markmið hérlendis fyrir hina ýmsu úrgangsflokka.  Má þar nefna markmið um söfnun raf– og rafeindatækjaúrgangs, söfnun rafhlöðu– og rafgeymaúrgangs, endurvinnslu og endurnýtingu umbúðaúrgangs og úr sér genginna ökutækja, endurvinnslu heimilisúrgangs, endurnýtingu byggingar– og niðurrifsúrgangs og markmið um samdrátt í urðun lífbrjótanlegs úrgangs (lífbrjótanlegur úrgangur er það sem áður var kallað lífrænn úrgangur).  Umhverfisstofnun hefur það hlutverk að halda utan um tölfræðina sem sýnir hvernig við stöndum gagnvart þessum markmiðum og stofnunin sendir árlega skýrslur til Hagstofu Evrópusambandsins yfir stöðu mála á Íslandi.  Umhverfisstofnun hefur nú ráðist í að birta þessa tölfræði í heild sinni á vefsíðu sinni.  Með gagnvirkum hætti má kalla fram myndræna tölfræði fyrir mismunandi úrgangsflokka og bera saman við þau markmið sem við eiga í hverjum flokki.

Tölfræðina er að finna hér.

Hvernig stöndum við í söfnun raf– og rafeindatækjaúrgangs og söfnun rafhlöðu– og rafgeymaúrgangs?

Sett hafa verið markmið um söfnun a.m.k. 6 kg af raf– og rafeindatækjaúrgangi á hvern íbúa landsins á ári og markmið um söfnun að lágmarki 25% rafhlöðu– og rafgeymaúrgangs á ári á tímabilinu 2012–2016.  Þetta markmið fer síðan stighækkandi til ársins 2024.  Ef við byrjum á að kanna hversu vel við höfum staðið okkur við söfnun raf– og rafeindatækjaúrgangs þá kemur í ljós að árin 2009 og 2010 vorum við undir markmiðinu um söfnun 6 kg á hvern íbúa, en markmiðið var sett árið 2008.  Þó varð mikið stökk í söfnun á milli þessara ára því árið 2009 var hún rúm 3 kg á hvern íbúa en ári seinna 5 kg á hvern íbúa.  Það var því ljóst að við vorum á réttri leið.  Það varð svo reyndin árið 2011 að markmiðið náðist því þá söfnuðust 6,5 kg af raf– og rafeindatækjaúrgangi á hvern íbúa.  Næstu ár á eftir jókst söfnunin enn frekar og var á síðasta ári 10,5 kg á hvern íbúa.  Árangurinn er ánægjuefni en við getum gert ennþá betur og sennilega er kominn tími til að setja nýtt og háleitara markmið.  Á tölfræðisíðunni má svo finna upplýsingar um hvernig hefur gengið að uppfylla markmið um endurvinnslu og endurnýtingu þess raf– og rafeindatækjaúrgangs sem safnað er og eru upplýsingarnar sundurliðaðar í 10 raf– og rafeindatækjaflokka.

Eins og áður segir er nú í gildi markmið um söfnun að lágmarki 25% rafhlöðu– og rafgeymaúrgangs á ári.  Markmiðið mun svo hækka upp í 45% árið 2016, í 65% 2020 og loks í 85% 2024.  Þegar tölfræðin er skoðuð kemur í ljós að söfnun á rafhlöðu– og rafgeymaúrgangi hér á landi er mjög góð þegar á heildina er litið.  Á árunum 2011–2013 söfnuðust í kringum 80% og þó að hlutfallið hafi tekið nokkra dýfu árið 2014, niður í 69%, þá var söfnunin á þessu tímabili meiri en markmiðið sem tekur gildi árið 2020 gerir kröfu um.  Það má því færa rök fyrir því að staðan hér á landi sé til fyrirmyndar.  Á tölfræðisíðunni er mögulegt að sundurliða söfnun rafhlöðu– og rafgeymaúrgangs í söfnun blýsýrurafgeyma annars vegar, sem eru að stærstum hluta hefðbundnir rafgeymar fyrir bíla, og hins vegar í aðrar rafhlöður.  Þá kemur í ljós að söfnun blýsýrurafgeyma er framúrskarandi góð og sá hluti hífir upp heildarsöfnunina.  Söfnunarhlutfall annarra rafhlaðna er hins vegar mun lægra og hefur farið lækkandi síðan 2012.  Þessi hluti dregur heildarsöfnunina niður, jafnvel þótt hlutfallið hafi verið nógu hátt til að ná markmiði um heildarsöfnun sem er í gildi tímabilið 2012–2016.  Hér á landi liggja því veruleg tækifæri í því að auka söfnun rafhlaðna, annarra en blýsýrurafgeyma.  Á tölfræðisíðunni má svo finna upplýsingar um hvernig hefur gengið að uppfylla markmið um endurvinnslu þeirra rafhlaðna– og rafgeyma sem safnað er og eru upplýsingarnar sundurliðaðar í þrjá flokka; blýsýrurafgeymar, nikkel–kadmíum rafhlöður og aðrar rafhlöður.