Stök frétt

Ári eftir að söluaðilum var gert að fjarlægja ólöglegar vörur af markaði voru fimm af átta vörum komnar aftur upp í hillu. Aðilar höfðu sent stofnuninni staðfestingu á að hafa fjarlægt vörurnar. Um er að ræða viðarvarnarefni sem eru til á flestum heimilum, sérstaklega á vorin.  Viðarvarnarefni innihalda virk efni sem geta verið skaðleg bæði heilsu fólks og umhverfi og til að lágmarka áhrifin er mikilvægt að þessar vörur séu áhættumetnar. Einnig eru þær virkniprófaðar til að fá fullvissu um að varan virki jafn vel og haldið er fram á merkingum/auglýsingum vörunnar. Hafi virku efnin í vörunni verið áhættumetin þarf varan að hafa markaðsleyfi til að vera lögleg hér á landi.

Umhverfisstofnun fór árið 2014 í eftirlit hjá fyrirtækjum sem markaðssetja viðarvarnarefni og skoðaði hvort þessar vörur hefðu tilskilin leyfi til að mega vera á markaði. Í því eftirliti komi í ljós að 8 vörur voru á markaði án markaðsleyfis.  Þetta eftirlitsverkefni var endurtekið síðastliðið vor og þá kom í ljós að fimm þessara vara voru aftur komnar í hillur verslana.  Þessar vörur eru:

  • Teknos, Woodex Base
  • Teknos, Woodex Aqua Base
  • Nordsjö, Tinova, Wood Base Oil, imprægneringsolje
  • Nordsjö, Tinova V Træbæse, imprægneringsolje
  • Slippfélagið, Viðar Grunnvörn

Viðarvarnarefni eru sæfivörur og árið 2004 var sett reglugerð sem innleiddi evrópska tilskipun um sæfivörur á Íslandi. Sú reglugerð var endurnýjuð 2014 með reglugerð nr. 878/2014 um sæfivörur. Samkvæmt þeirri reglugerð skulu allar sæfivörur að vera með markaðsleyfi eftir að búið er að áhættumeta virku efni þeirra.