Stök frétt

Á vormánuðum 2015 fór Umhverfisstofnun í eftirlit með eiturefnum og öðrum hættulegum efnum. Hættuleg efni eru föst efni, vökvar eða lofttegundir sem geta valdið skaða á fólki, öðrum lífverum eða umhverfinu. Meðal hættulegra efna eru eiturefni, en það eru lífræn- eða ólífræn efnasambönd sem í nægjanlega stórum skömmtun geta valdið eitrun og jafnvel dauða. Eiturefni geta verið mikilvæg í ýmsum iðnaði og sem dæmi um þau má nefna bílalakk, ýmis smurefni og sterk hreinsiefni. Eiturefni geta verið mjög varasöm og því er nauðsynlegt að hafa virkt eftirlit með þeim.

Eftirlitsverkefnið náði til fjögurra verslana sem markaðssetja eiturefni og í framhaldi af því var einnig leitað til einn heildsala. Megináhersla var lögð á að merkingar væru í samræmi við gildandi reglugerðir og að öryggisblöð væru uppfærð og á íslensku. Í úrtaki voru meðal annars lakk- og málningarvörur og ýmis konar hreinsiefni. Eitt af fyrirtækjunum var ekki með nein skráð frávik, en önnur þurftu að gera úrbætur á merkingum og/eða öryggisblöðum. Alls voru 97 vörur í úrtaki. Um 70% þeirra voru án frávika, en 30% fengu athugasemdir sem bæta þurfti úr.

Athygli vakti að lítið var um að búið væri að uppfæra hættumerkingar og taka upp nýju CLP hættumerkin, sem urðu skyldubundin fyrir bæði efni og efnablöndur þann 1. júní 2015. Eftir þann tíma er ekki heimilt að setja nýjar vörur í sölu með gömlum merkingum, heldur einungis að ljúka við að selja eldri birgðir sem eru komnar fram í verslanir. Á þeim tíma sem eftirlitið fór fram var heimilt að nota eldri hættumerki, en mikilvægt er að búið verði að skipta þeim út að fullu fyrir 1. júní 2017.

Viðbrögð fyrirtækjanna við niðurstöðu eftirlitsins voru alla jafna góð. Forsvarsmönnum þeirra var almennt umhugað um að merkingar eiturefna og annarra hættulegra efna væru í samræmi við gildandi reglur og sýndu vilja og jákvæðni gagnvart því að bæta úr frávikum. Þar sem 70% vara í úrtaki voru frávikalausar virðist þekking innan fyrirtækjanna vera nokkuð góð, en ljóst er að þörf er á betri kynningu á nýju CLP hættumerkingunum fyrir hættuleg efni svo innflytjendur og framleiðendur geti verið betur upplýstir um skyldur sínar á því sviði.

Öll fyrirtækin hafa nú brugðist við tilmælum Umhverfisstofnunar og sýnt fram á úrbætur á frávikum.

Tengd skjöl