Stök frétt

Umhverfisstofnun, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Kerlingarfjallavinir hafa hafið vinnu við undirbúning að friðlýsingu Kerlingarfjalla. Haldinn var undirbúningsfundur 2. febrúar sl. á Flúðum með fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Umhverfisstofnunar og Hrunamannahrepps. Fundurinn var afar jákvæður og kom fram skýr vilji af hálfu heimamanna að friðlýsing gæti gengið fljótt og vel.

Kerlingarfjöll búa yfir stórbrotinni náttúru. Þau eru vel afmarkaður fjallaklasi á hálendinu, með einstaka litadýrð. Þar eru fjölbreyttar og sérstæðar jarðmyndanir og merkilegt samspil jarðhita, íss og gróðurs. Innan Kerlingarfjallasvæðisins eru jafnframt fjögur svæði í verndarflokki rammaáætlunar.

Kerlingarfjallasvæðið nýtur mjög vaxandi vinsælda fyrir hvers konar útivist. Áður var þar vinsælt skíðasvæði en nú heimsækja gestir svæðið fyrst og fremst til útivistar þar sem víðerni og háhitasvæði eru helsta aðdráttarafl svæðisins.

Í Kerlingarfjöllum er jafnframt vaxandi ferðaþjónusta. Við undirbúning að friðlýsingu svæðisins er ætlunin að stuðla að því að starfsemi innan þess verði sem mest sjálfbær.

Jafnframt geti það skapað svæðinu sérstöðu sem sjálfbær áfangastaður, skapað tengsl við nærsvæði á Suðurlandi og hugsanlega orðið til fyrirmyndar fyrir rekstur innan annarra friðlýstra svæða í framtíðinni. Gera má ráð fyrir að ferðamennska á svæðinu haldi áfram að aukast á komandi árum, en með friðlýsingunni er ætlunin að setja tímanlega reglur og skipulag fyrir svæðið og byggja upp nauðsynlega innviði til verndar náttúrunni.

Við undirbúning friðlýsingarinnar verður haft samráð við hagsmunaaðila, m.a. rekstraraðila sem starfa innan þess svæðis sem fyrirhugað er að friðlýsa. Nánari upplýsingar um undirbúning friðlýsingarinnar verður að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.