Stök frétt

Gísli Gíslason formaður Hafnarsamband Íslands, umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrún Magnúsdóttir, Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar og Guðbergur Rúnarsson fh. Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Höfundur myndar: Gísli Gíslason formaður Hafnarsamband Íslands, umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrún Magnúsdóttir, Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar og Guðbergur Rúnarsson fh. Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Í blíðskaparveðri á sjómannadaginn undirrituðu fulltrúar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Hafnasambands Íslands  og Umhverfisstofnunar samkomulag um móttöku á úrgangi og farmleifum frá skipum. Samkomulagið hefur í för með sér að útgerðir sem ekki nýta móttökuaðstöðu hafna beri að skila gögnum til viðkomandi hafnaryfirvalda um magn og tegund úrgangs sem berst í land frá fiskiskipum. Margar útgerðir hafa verið að byggja upp móttöku- og flokkunarstöðvar fyrir bæði fiskiskip og fiskvinnsluna til að bæta flokkun og búa þannig til verðmæti í stað óflokkaðs úrgangs sem færi oftast í urðun.  Þessi fyrirtæki munu halda nákvæma skráningu um magn og tegund úrgangs sem kemur frá fiskiskipum og aðgreina frá annarri starfssemi.

Í samkomulaginu felst að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi munu senda Umhverfisstofnun yfirlit einu sinni á ári yfir þau fyrirtæki sem nýta sér þessa heimild, en þau hafa tekið á sig  þær skyldur að skila gögnum til viðkomandi hafnaryfirvalda um magn og tegund úrgangs sem berst í land frá þeirra fiskiskipum a.m.k. mánaðarlega.Hafnir skila þessum upplýsingum til Umhverfisstofnunar einu sinni á ári og mun stofnunin í samráði við samningsaðila gera árlega samantekt um virkni samkomulagsins.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, vottaði undirskrift samkomulagsins og lýsti yfir ánægju sinni með þetta skref sem tryggir að Ísland geti veitt greinargóðar upplýsingar um úrgang sem berst í land frá fiskiskipum og jafnframt að  samkomulagið væri í samræmi við nýsamþykkta stefnu ráðherra „Saman gegn sóun“ sem snýr að úrgangsforvörnum.