Stök frétt

Steinunn Hjartardóttir og Soffía Haraldsdóttir hótelstýrur ásamt Hákoni Ásgeirssyni sérfræðingi Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun vinnur nú að því að gera samkomulag við rekstraraðila innan friðlýstra svæða í umsjón stofnunarinnar um að vinna sameiginlega að verndun svæðanna. Fyrsti samningurinn hefur verið undirritaður og var gerður við Hótel Flókalund sem er með rekstur í friðlandinu Vatnsfirði. Markmið samningsins er að draga sem mest úr neikvæðum umhverfisáhrifum í friðlandinu og hafa sem allra minnst áhrif á náttúruna samhliða því að starfsemi hótelsins falli að verndargildi og markmiði verndar og fari ekki gegn því.

Hótel hefur verið í Flókalundi frá árinu 1966 og núverandi eigendur þau Steinunn Hjartardóttir, Soffía Haraldsdóttir og eiginmenn þeirra Ólafur Haraldsson og Sævar Pálsson hafa rekið hótelið frá árinu 1999. Hjónin hafa undanfarin ár lagt áherslu á umhverfisvænan rekstur m.a. með því að draga úr og flokka úrgang, bjóða upp á mat úr héraði og rækta sitt eigið grænmeti. Hótel Flókalundur er lítið sumarhótel með 15 herbergjum og veitingastað. Gott aðgengi er fyrir hreyfihamlaða og eitt herbergi með hjólastólaaðgengi. Einnig er þar tjaldsvæði með alla þjónustu og flottu útsýni yfir Vatnsfjörðinn. Nánari upplýsingar um Hótel Flókalund er á http://www.flokalundur.is/  

Aðilar þessa samkomulags, Umhverfisstofnun og Hótel Flókalundur, munu m.a. leggja sig fram um að; gæta hófs við notkun hreinsiefna, flokka úrgang, nota umhverfisvottuð hreinsiefni, pappír og málningu og skapa snyrtilegt, skilvirkt og fræðandi umhverfi og jákvæða ásýnd svæðisins.