Stök frétt

Umhverfisstofnun vill af gefnu tilefni minna á að einstaklingum 15 ára og eldri er óheimilt að hafa fleiri en tvö börn með sér, 10 ára eða yngri, þegar sundstaðir eru heimsóttir nema um sé að ræða foreldri eða þann sem fer með forsjá barnanna lögum samkvæmt. Þar að auki er áréttað að börnum sem ekki hafa náð 10 ára aldri er óheimill aðgangur að sund- og baðstöðum nema í fylgd með syndum einstaklingi 15 ára eða eldri.

„Okkur starfsmönnum sundstaða finnst vont að fólk álítur oft að það sé hlutverk okkar að sjá um börnin. Margir gera sér ekki grein fyrir að við erum að gæta öryggis allra gesta sundstaðarins og sinna forvörnum.  Okkar hlutverk er ekki að vera barnapíur og því eru börn undir 10 ára aldri alfarið á ábyrgð þeirra sem koma með barnið í sund,“ segir Árni Rúnar Árnason sundlaugarvörður í Hafnarfirði og bætir við að foreldrar verði að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni þegar farið er í sund með ósynd börn og verði að sjá til þess að þau séu aldrei án eftirlits. „Ósynt barn skal ávallt hafa armkúta í og við sundlaugar og heita potta. Ekki er hægt að koma þessari ábyrgð yfir á laugarverði sundlauganna,“ segir Árni Rúnar.

Gunnar Alexander Ólafsson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun tekur undir með Árna Rúnari og segir að börn sem eru yngri en 10 ára séu algerlega á ábyrgð foreldra eða forráðamanna meðan á heimsókn stendur. „Laugarverðir og aðrir starfsmenn sundstaða sjá um almennt öryggi en eiga ekki að gæta barna sérstaklega meðan á dvöl þeirra í sundi stendur,“ segir Gunnar og hvetur almenning til að taka mið af þessu.