Stök frétt

Fram eru komnar tillögur að aðgerðum um að draga úr notkun burðarplastpoka á Íslandi. Starfshópur með fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum iðnaðar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og umhverfis- og auðlindaráðuneytis skiluðu nýverið skýrslu af sér þess efnis.

Í meginatriðum leggur hópurinn til að farið verði eftir breytingum sem gerðar verða á EES- samningnum um burðarplastpokanotkun þar sem fram kemur að árið 2025 eigi hver einstaklingur aðeins að nota 40 burðarplastpoka á mann. Talið er að hver Íslendingur noti um 105 burðarplastpoka á ári en fyrir fjögurra manna fjölskyldu er það um 8 pokar á viku. Starfshópurinn lagði áherslu á að ekki ætti að færa eina einnota notkun yfir í aðra einnota notkun sem ætti þá líka við margnota poka og lífræna poka.

Lykilatriði í því að draga almennt úr notkun burðarplastpoka, til dæmis með því að:

  • Flokka úrgang á heimilinu og hjá fyrirtækjum eins vel og hægt er og nota ekki poka undir flokkaðan úrgang. Það sem er eftir er mjög lítið magn blandaðs úrgang sem þá getur farið í poka sem til falla
  • Nota margnota poka fyrir alla verslun (matvöru, fatnað, apótek, leikföng), gæta þarf þó að því að safna ekki upp mörgum pokum sem síðan eru aldrei notaðir
  • Sleppa pokum fyrir ávexti- grænmeti og brauð í verslunum eða nota net eða margnota poka fyrir það

Í skýrslunni kemur einnig fram að allir aðilar sem rætt var við voru mjög jákvæðir út í verkefnið og hefur verslunin sjálf hug á því að fá að leiða vinnu við að draga úr burðarplastpokanotkun hjá þeim og sjá um fræðslu og kynningu á verkefninu.