Stök frétt

Um helgina voru stofnuð Samtök norrænna heimsminjastaða við hátíðlega athöfn á Þingvöllum. Unnið hefur verið að undirbúningi samtakanna um nokkurt skeið en aðild að samtökunum eiga heimsminjastaðir á Norðurlöndunum. Um 40 heimsminjar eru skráðar á Norðurlöndum og fleiri tilnefningar í undirbúningi. Hin nýju samtök munu vinna að samstarfi staðanna, faglegu samstarfi og vera vettvangur til að vinna að kynningu og framgangi heimsminjastaðanna.

„Ég sé þetta sem stórt tækifæri til að efla samvinnu hér innanlands um verndun um miðlun okkar tveggja UNESCO-svæða en jafnframt tækifæri til að efla norræna samvinnu þeirra sem bera ábyrgð á þessum mikilvægu svæðum á Norðurlöndunum öllum.  Samvinna sem ég vona að ýti á fjölgun UNESCO-svæða á Íslandi enda eigum við fjölda svæða sem svo sannarlega eiga fullt erindi til að komast á heimsminjaskrá,“ sagði Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar við þetta tilefni.

Á myndunum sem fylgja frá athöfninni má m.a. sjá forstjóra Umhverfisstofnunar og Ólaf Örn Haraldsson þjóðgarðsvörð á Þingvöllum undirrita stofnsáttmálann.