Stök frétt

Umhverfisstofnun fór í eftirlit með sölu á snyrtivörum í Kolaportinu í byrjun október 2016. Skoðuð voru sýnishorn af vörum sem eru upprunnar frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins í tveimur sölubásum sem þar voru með snyrtivörur í sölu. Af þeim 13 vörum sem skoðaðar voru reyndust 11 vera með frávik samkvæmt reglugerð um snyrtivörur. Niðurstöður eftirlitsins benda til þess að það sé ekki einhlítt að snyrtivörur í torgsölu, sem upprunnar eru frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, standist kröfur laga og reglugerða. Mikilvægt er fyrir þá sem kaupa og nota snyrtivörur sem keyptar eru í torgsölu eða á netinu, að þeir hafi í huga að varan hafi ábyrgðaraðila á Evrópska efnahagssvæðinu, því þá er líklegra að varan standist kröfur sem til hennar eru gerðar. Þær upplýsingar eiga að vera á umbúðum vörunnar.

Söluaðilar varanna brugðust við kröfum Umhverfisstofnunar um úrbætur með því að hætta sölu á öllum þeim vörum sem ekki uppfylltu kröfur. Algengasta frávikið var að upplýsingar um ábyrgðaraðila á Evrópska efnahagssvæðinu voru ekki tilgreindar á umbúðum varanna. Tvær vörur reyndust innihalda ísóbútýlparaben sem er óleyfilegt innihaldsefni í snyrtivörum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá vantaði skyldubundin viðvörunarorð og notkunarleiðbeiningar á íslensku fyrir þrjú hárlitunarefni sem skoðuð voru.  

Tengd skjöl