Stök frétt

Meðfylgjandi eru drög að áætlun til að stuðla að bættum loftgæðum á Íslandi. Umhverfis- og auðlindaráðherra skal gefa út áætlun um loftgæði til 12 ára samkvæmt 6. mgr. 6. gr. d. laga nr.  7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Áætlunin skal gilda fyrir landið allt. Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að áætluninni að höfðu samráði við heilbrigðisnefndir sveitafélaga, Samtök atvinnulífsins og fleiri aðila.  

Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að góðum loftgæðum og heilnæmu umhverfi í samræmi við lykilmarkmið stjórnvalda (Málefnasvið 17 - Umhverfismál) og stefnu Umhverfisstofnunar. Meginmarkmiðið er yfirlýsing um hvert sé stefnt í málefnum tengdum loftgæðum. Til að ná settu markmiði eru sett fram tvö undirmarkmið með röð aðgerða og skilgreindum ábyrgðaraðilum auk tímamarka. Fyrsta undir markmiðið er að fækka ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar á Íslandi og hið seinna er að fækka árlegum fjölda daga þar sem svifryk fer yfir skilgreind mörk af völdum umferðar. 

Það er von umhverfis- og auðlindaráðuneytis að þessi áætlun muni stuðla að heilnæmu umhverfi og bættu heilbrigði í landinu auk þess að hún megi nýtast öllum þeim sem láta sig loftgæði og lýðheilsu varða. Drög að aðgerðaáætluninni má nálgast á heimasíðu Umhverfisstofnunar, www.ust.is. Umhverfisstofnun skal auglýsa drögin í sex vikur þannig að hagsmunaaðilar, almenningur og stjórnvöld hafi tækifæri til að gera athugasemdir við hana. 

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun á ust@ust.is. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 31. ágúst 2017.  

Drög að áætlun um loftgæði á Íslandi (pdf skjal)