Stök frétt

Fyrstu niðurstöður mælinga á rokgjörnum lífrænum efnasamböndum (VOC efna) vegna kísilverksmiðju Sameinaðs Sílikons hf. hafa borist Umhverfisstofnun. Í kjölfarið fóru sérfræðingar stofnunarinnar yfir gögnin og í framhaldi af því var fundað með fulltrúm Sameinaðs Sílikons, Multiconsult, Norconsult og Sóttvarnarlækni. Umhverfisstofnun hefur einnig móttekið stöðuskýrslu Multiconsult vegna þessara mælinga.

Um er að ræða mælingar sem gerðar voru vegna mikilla lyktaráhrifa sem gætt hefur frá verksmiðjunni frá því hún var gangsett í nóvember sl. Norska loftrannsóknastofnunin NILU var fengin til að sjá um skipulag mælinga og greiningu sýna. Mæliáætluninni má skipta niður í þrjá hluta:

Fyrsti hluti áætlunarinnar innihélt sýni tekin voru í íbúabyggð og á svæði fjarri áhrifasvæði verksmiðjunnar. Sýnataka er enn í gangi en fyrsta sýnið var sent út í lok júní og bíður greiningar hjá NILU. Niðurstöðu er að vænta í lok ágúst.

Annar hlutinn innihélt skammtímasýni þar sem eitt sýni var tekið á hverjum degi í 12 daga frá endurgangsetningu verksmiðjunnar þann 21. maí. Sýnin voru tekin efst í síuhúsi þar sem áætlað er að mesti styrkur sé í útblæstri verksmiðjunnar. NILU dregur þá almennu ályktun á grunni þessara 12 sýna (með þeirri aðferð sem notuð var) að engin skaðleg efni fundust í sýnunum í þeim styrk að þau gætu haft skaðleg áhrif á íbúa nærliggjandi svæða. Ákveðnar vísbendingar voru hinsvegar um að annað efni sem ekki var mælt, formaldehýð, gæti verið til staðar í útblæstri frá verksmiðjunni. Formaldehýð er mjög rokgjarnt lífrænt efnasamband (VVOC) sem þessi tegund mælitækja sem notuð voru geta ekki mælt. Til stendur að setja upp önnur mælitæki sem geta mælt þessa tegund efnasambanda s.s. formaldehýð sem fyrst.

Þriðji hluti áætlunarinnar innihélt þrjú sýni sem tekin voru í ofnhúsi, inni í síuhúsi og utan á rjáfri síuhúss. Safnað var í sýnin í 19 daga frá endurgangsetningu verksmiðjunnar og gefur niðurstaðan meðalinnihald efnanna fyrir allt tímabilið. NILU dregur sömu ályktun á grundvelli þessara sýna að engin skaðleg efni fundust í sýnunum í þeim styrk að þau gætu haft skaðleg áhrif á íbúa nærliggjandi svæða. Talsvert fannst þó af lífrænu anhýdríði í síuhúsi sem getur valdið lykt og tímabundinni ertingu í öndunarvegi og augum. Anhýdríð eru erfið í mælingu og því er ekki komin fullvissa um styrk efnisins. Því stendur einnig til að gera frekari mælingar á þessu efni.

Þó upplýsingar um gerð og magn nokkurra efna liggi fyrir er frekari vinna nauðsynleg til að fá samanburð á styrk þessara efna í öðrum aðstæðum. Það á t.d. við um formaldehýð en það finnst mjög víða en styrkur þess ræður mestu um möguleg heilsufarsáhrif. Formaldehýð getur myndast við bruna timburs en það getur líka fylgt ýmsum vörum sem innihalda lím. Þannig er t.d. lykt af nýjum húsgögnum, innréttingum og teppum að hluta til lykt af formaldehýði.

Sóttvarnalæknir hefur farið yfir upplýsingar frá læknum heilsugæslu Suðurnesja, fjölda ákveðinna sjúkdómsgreininga og sölu öndunarfæralyfja á Suðurnesjum. Einnig hefur hann farið yfir kvartanir frá íbúum í nágrenni verksmiðjunnar og þeim mæliniðurstöðum sem fyrir liggja. Mat Sóttvarnalæknis á fyrirliggjandi upplýsingum um heilsufarsáhrif mengunar frá verksmiðunni er að hún virðist valda vægri ertingu í augum og öndunarvegi hjá heilbrigðum einstaklingum sem eru mismikil milli einstaklinga. Einstaklingar með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma virðast þó oft á tíðum finna fyrir meiri einkennum og þá sérstaklega astmaeinkennum sem í mörgum tilfellum krefjast sérstakrar lyfjagjafar. Engin dæmi eru hins vegar um alvarleg heilsuspillandi áhrif. Fyrrgreind einkenni geta stafað af anhýdríðum sem mælst hafa og/eða formaldehýð sem vísbendingar eru um að gæti verið í útblæstri verksmiðjunnar. Því er nauðsynlegt að fá frekari mælingar á þessum efnum til að meta betur hugsanleg heilsufarsáhrif mengunarinnar.   

Enn stendur ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 13. mars varðandi takmörkun á starfsemi Sameinaðs Sílikons þar sem kveðið er á um að framleiðsla verksmiðjunnar einskorðist við einn ljósbogaofn.