Stök frétt

Starfsmenn Umhverfisstofnunar fundu mikið rusl í Bakkavík á Seltjarnarnesi mánudaginn 10. júlí sl. sem rekja má til skólps. Um er að ræða blautklúta, dömubindi, eyrnapinna o.fl. í þeim dúr. Við fyrstu sýn má ætla að um 5-6 sinnum meira magn af slíku rusli hafi safnast miðað við apríl sl. Talið er að þessa miklu aukningu megi rekja til bilunar í skólpdælustöðinni í Faxaskjóli og rennslis á óhreinsuðu skólpi þaðan í sjó.

Í Bakkavík er rusl vaktað fjórum sinnum á ári, á 100 m löngu svæði, í samræmi við aðferðafræði OSPAR. Vöktunin hófst sumarið 2016 og felur hún í sér að flokka, telja og skrá það rusl sem finnst. Niðurstöðunum er skilað jafnóðum í gagnagrunn OSPAR.

Með vöktuninni uppfyllir Ísland hluta af aðgerðaráætlun OSPAR, sem Ísland hefur samþykkt, að draga úr skaðsemi úrgangs í hafi og á ströndum. OSPAR samningurinn fjallar um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins sem Ísland er aðili að. Strandir í Surtsey, Búðavík á Snæfellsnesi og Rauðasandi eru einnig vaktaðar með þessum hætti.

Umhverfisstofnun vinnur nú skýrslu með samantekt á niðurstöðum vöktunar rusls á ströndum árið 2016 og verður hún birt seinna á þessu ári.

Myndina tók Steinunn Árnadóttir.