Stök frétt

Ný reglugerð sem innleiðir þá fjóra viðauka við alþjóðasamning um varnir gegn mengun frá skipum (MARPOL samninginn) sem Ísland hefur staðfest hefur tekið gildi.

Viðaukarnir sem um ræðir eru viðauki I um varnir gegn olíumengun frá skipum, viðauki II um varnir gegn mengun vegna eitraðra efna í fljótandi formi sem flutt eru í geymum skipa, viðauki III um varnir gegn mengun af völdum hættulegra efna sem flutt eru í pökkuðu formi og viðauki V um varnir gegn sorpmengun frá skipum. Viðaukar MARPOL eru að miklu leyti tæknilegs eðlis og taka tíðum breytingum, en með nýju reglugerðinni eru viðaukarnir með áorðnum breytingum innleiddir hér á landi, þ.m.t. þau ákvæði Pólkóðans er varða vernd umhverfisins.

Í reglugerðinni er meðal annars ákvæði um hlutverk stjórnvalda og einnig eru tilgreind séríslensk ákvæði varðandi viðauka I við MARPOL samninginn. Viðaukarnir við MARPOL samninginn sem reglugerðin innleiðir eru birtir á ensku í C-deild Stjórnartíðinda.  

Reglugerðin kemur í stað þriggja reglugerða frá 1995-2004, sem felldar eru úr gildi:

  • Reglugerð nr. 715/1995, um varnir gegn mengun sjávar frá skipum.
  • Reglugerð nr. 527/1999, um varnir gegn mengun sjávar vegna eitraðra efna í fljótandi formi sem flutt eru í geymum skipa.
  • Reglugerð nr. 801/2004, um varnir gegn sorpmengun frá skipum.

Umfjöllun um reglugerðina er einnig að finna á heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Pólkóðinn tók gildi 1. janúar sl. og er innleiddur í gegnum MARPOL samninginn, SOLAS samninginn og STWC samþykktina. Hann tekur til smíði og hönnunar skipa, búnað um borð í skipum, þjálfunar áhafnar, reksturs skipa og vernd umhverfisisins. Texta pólkóðans í heild sinni er að finna á heimasíðu Alþjóðasiglingastofnunarinnar (IMO). 

Þar má einnig sjá myndband með upplýsingum um efni pólkóðans og mikilvægi hans.

Mynd: Wikimedia Commons