Stök frétt

Huldar hættur á heimili Hönnu er skemmtilegt og einfalt kennsluefni á netinu þar sem nemendur í 3.-7. bekk í grunnskóla kynnast vörum sem innihalda hættuleg efni og eru algengar í umhverfi okkar.

Á öllum heimilum má finna vörur sem innihalda hættuleg efni og börn geta komist í návígi við, svo sem hreinsiefni, stíflueyða, grillvökva, viðarvörn og skordýraeitur. Erting á húð, augnskaði og alvarleg einkenni vegna inntöku eru dæmi um áhrif sem börn geta orðið fyrir af völdum hættulegra efna og því er nauðsynlegt að fræða þau um mögulegar hættur til að minnka líkurnar á slysum. Ef farið er varlega og efnin notuð á öruggan hátt, er ekkert að óttast.

Á vefsíðunni má finna upplýsingar um hættumerkin ásamt leiðbeiningum fyrir kennara um kennsluefni. Kennsluefnið gæti hentað vel fyrir kennslu í náttúru- eða samfélagsgreinum. Nú er lokið við að uppfæra Hönnuhús og bæta nýju kennsluefni inn á vefsíðuna og er þar um að ræða þrjár greinar „Heimur okkar samanstendur af efnum“, „Efni og umhverfið“ og „Verum varkár“ ásamt nýjum leiðbeiningum fyrir kennara. Markmið greinanna er að vekja nemendur til umhugsunar um hver möguleg áhrif hættulegra efna geta verið á heilsu manna eða umhverfi og hvað nemendur geta sjálfir gert til að tryggja öryggi sitt og vernda umhverfið.

Huldar hættur á heimili Hönnu er samnorrænt verkefni þróað í samvinnu fimm Norðurlanda; Íslands, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Finnlands með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni. Hægt er að nálgast Hönnuhús á sex tungumálum á eftirfarandi vefsíðum:

 

Danmörk:           hannashus.dk

Finnland:             hannantalo.fi og svensk.hannantalo.fi

Ísland:                  honnuhus.is

Noregur:             hannashus.no  

Svíþjóð:               hannashus.se

Ensk útgáfa:       english.hannashus.dk