Stök frétt

Að gefnu tilefni skal tekið fram að stígur frá neðra bílastæði niður að Gullfossi er lokaður vegna frosts og stöðugs vatnsúða frá fossinum. Allir aðrir stígar og útsýnispallar ásamt tröppum milli efra og neðra svæðis við Gullfoss eru opnir.

Brögð eru að því að ferðamenn hafi ekki virt lokunina við neðra svæði Gullfoss. Aðstæður valda því að glærahálka skapast á stígnum frá neðra stæðinu og ennig er tilfallandi grjóthrun úr hlíð fyrir ofan stíginn. Bent skal á að gott útsýni er yfir fossinn af göngustígum og pöllum frá Gullfosskaffi (frá efra bílastæði) niður stiga og frá neðra bílastæði af útsýnispöllum og göngustígum.

Ólafur A. Jónsson, sviðstjóri á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun, segir ómögulegt að fylgja því eftir að ferðamenn hlýði lokunum þótt þær séu öflugar og vel merktar. Ástandið sé óöruggt og þess vegna sé hluta svæðisins lokað. Ekki sé hægt að hafa stöðuga gæslu vegna kostnaðar.

Fjöldi gesta á dag yfir veturinn er á bilinu 1.500 til 2.500 samkvæmt teljara við Gullfoss.