Stök frétt

Heimsdagur vatnsins er í dag en hann er haldinn hátíðlegur 22. mars hvert ár. Allsherjarráð Sameinuðu þjóðanna útnefndi daginn árið 1992 og hefur verið haldið upp á hann síðan. Í ár er dagurinn tileinkaður náttúrunni í þjónustu vatnsins.

Vatn hefur sætt rányrkju víða um heim og eru vatnsbirgðir víða að þrjóta. Nauðsynlegt er að vinna með náttúrunni í að endurheimta og viðhalda vatni í takt við náttúrulega hringrás þess. Inngrip mannsins með þéttingu yfirborðs á vatnasviðum fallvatna veldur meiri og tíðari flóðum en áður hefur þekkst. Á sama tíma er vatnstaka, mangerðir farvegir og vatnsmengun víða yfir því sem náttúran ein ræður við. Lausnirnar felast í því að láta náttúruna og lögmál hennar vera leiðandi í áætlunum um úrbætur.

Í þéttbýli á Íslandi er ofanvatn í einföldum fráveitum víða vandamál. Það gerir mun meiri kröfur til hreinsistöðva og eykur kostnað vegna aukins vatnsmagns og mikilla regnvatnstoppa. Það er bæði dýrt og í reynd óþarft að leiða allt ofanvatnið inn í fráveitur. Nota ætti náttúrlega ferla vatnsins og láta það síga ofan í jarðveginn eins og það gerði áður en maðurinn breytti því. Þannig hreinsast einnig mengunarefni úr vatninu, m.a. örplast frá dekkjum ökutækja. Jarðvegsþök dempa rennslistoppa. Það ætti að vera regla hjá öllum sem skipuleggja byggð eða hanna mannvirki að gera ráð fyrir slíkum lausnum við nýtt skipulag og nýjar byggingar. Ennfremur er oft hægt að byggja inn slíkar lausnir þegar meiriháttar endurbætur fara fram í gömlum hverfum.

Umhverfisstofnun hvetur landsmenn til að vinna með náttúrunni í því að bæta ástand vatns. Forðumst eins og hægt er að auka þétt yfirborð í þéttbýli, t.d. við hönnun gatna og gangstétta. Forðumst kantsteina sem beina ofanvatninu í niðurföll, leyfum því að renna út af á skipulagðan hátt.

Hægt er að kynna sér betur dag vatnsins á vefsíðu Sameinuðu þjóðanna, http://worldwaterday.org/.

Íslenska vatnafræðinefndin starfar undir merkum menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Upplýsingar um hana er að finna hér.

Ýmsar upplýsingar um stjórn vatnamála má einnig fá á slóðinni www.vatn.is.

 

(Mynd: Wikipedia)