Stök frétt

Umhverfisstofnun hreppti þriðja sætið í flokki fyrirtækja og stofnana sem eru með 70-129 starfsmenn í hreyfiátakinu Hjólað í vinnuna 2018. Grundaskóli bar sigur úr býtum en Síðuskóli varð sjónarmun á undan Umhverfisstofnun. Alls tóku 55 vinnustaðir þátt í þessum flokki. Sjá nánari úrslit hér.

Mörgum fannst veðrið til hjólreiða lengst af á tímabilinu ekki mjög hliðhollt. Þrátt fyrir misgóðar aðstæður lét mikill meirihluti starfsmanna Umhverfisstofnunar bílinn eiga sig til og frá vinnu þá daga sem átakið fór fram. Langflestir þátttakenda í átakinu hjóluðu, en nokkrir nýttu sér almenningssamgöngur eða gengu til og frá vinnu. Ekki þarf að tíunda mikilvægi vistvæns samgöngumáta auk þess sem hreyfing eykur heilbrigði og ánægju.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur að Hjólað í vinnuna og fór verðlaunaafhending fram í Laugardalnum í hádeginu í dag. Á myndinni eru nokkrir liðstjórar Umhverfisstofnunar í átakinu, kampakátir með árangurinn.