Stök frétt

Talsvert hefur borið á því að ekið er inn á svæði í friðlandi að Fjallabaki þar sem í gildi er akstursbann vegna verndunar náttúru og innviða á meðan snjóa leysir og frost er að fara úr jörðu. Að aka inn á svæði þar sem akstursbann er í gildi er brot á lögum og varðar sektum. Afleiðingar þess að ekið er inn á þessi svæði hafa oft í för með sér óafturkræfar skemmdir á náttúru eða að lagfæringar á skemmdum verða mjög kostnaðarsamar og tímafrekar. Á meðfylgjandi mynd sést hvernig ítrekað hefur verið ekið utan vega til að sneiða framhjá snjóskafli á veginum. Um er að ræða skemmdir sem mun verða tímafrekt að lagfæra og taka langan tíma að gróa.  Sumar á hálendinu er mjög stutt og vaxtartími gróðurs að sama skapi stuttur. Gróður er því mjög viðkvæmur fyrir öllu raski og getur tekið hann mörg ár að endurnýja sig.

Ólöglegur utan vega akstur er stórt vandamál á hálendi Íslands og hefur verið lagt kapp á að sporna gegn því með aukinni landvörslu og fræðslu. Landverðir verða sjaldnast vitni af utan vega akstri. Það er því mikilvægt að við stöndum saman vörð um náttúruna og tilkynnum til lögreglu brot á náttúruverndarlögum.