Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út tvær nýjar sorpdagbækur fyrir skip. Önnur sorpdagbókin (I. hluti) skal vera um borð í sérhverju skipi sem er 400 brúttótonn eða stærra og í sérhverju skipi sem er skráð til að flytja 15 manns eða fleiri. Hin sorpdagbókin (II. hluti) skal einnig vera um borð í skipum sem flytja fastan búlkafarm. Sorpdagbækurnar eru gefnar út í kjölfar breytinga sem gerðar voru á viðbæti við V. viðauka MARPOL-samningsins, en með þeim er formi fyrir sorpdagbók breytt og gerðar eru breytingar á flokkum sorps. Við bætist sérstakur flokkur fyrir raf- og rafeindabúnaðarúrgang og farmleifum er skipt í tvo flokka, þ.e. farmleifar sem eru skaðlausar fyrir umhverfi hafsins og farmleifar sem eru skaðlegar fyrir umhverfi hafsins.

Hægt er að nálgast eintak af sorpdagbókunum í afgreiðslu Umhverfisstofnunar að Suðurlandsbraut 24.