Stök frétt

 

Alþingi bættist sl. föstudag í hóp stofnana sem hafa fengið viðurkenningu frá Umhverfisstofnun fyrir fyrsta áfanga Grænna skrefa. Innan Alþingis hefur áhugi á umhverfismálum aukist markvisst og getur starfsfólk vinnustaðarins verið stolt af tímamótunum.

Meðal aðgerða sem Alþingi hefur innleitt eru:
o Að bjóða uppá sódavatn í vél í stað þess að starfsmenn og þingmenn kaupi sér nýja og nýja flösku. Allir starfsmenn og þingmenn hafa auk þess fengið margnota vatnsflöskur að gjöf.
o Flokkun á úrgangi hefur aukist um leið og það er líka skipulagðara og aðgengilegra
o Fleiri koma með umhverfisvænum hætti til vinnu en áður
o Alþingi hefur hafið vinnu við að draga úr magni fjölpósts sem kemur til þeirra. Þá hefur verið sett upp lesstofa þar sem hægt er að skoða blöð og póst sem berst Alþingi.

Mikilvægt skref stigið

Alþingi hefur því stigið mikilvægt skref í átt að umhverfisvænna samfélagi og óskar Umhverfisstofnun þeim innilega til hamingju með áfangann. Auk þess hvetur Umhverfisstofnun opinbera aðila til að sýna gott fordæmi og vera almenningi fyrirmynd í umhverfismálum.

Markmið Grænna skrefa er að draga úr umhverfisáhrifum vegna opinbers reksturs og auka þekkingu starfsfólks á umhverfismálum. Verkefnið er á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis og fer Umhverfisstofnun með umsjón þess. Grænu skrefin er einfaldur gátlisti í fimm skrefum, þar sem stofnanir þurfa að innleiða fyrirfram ákveðnar aðgerðir og fá viðurkenningu fyrir hvert skref sem tekið er. Allar upplýsingar um verkefnið eru inni á www.graenskref.is og facebook síðu /graennrikisrekstur/