Stök frétt

Illgresiseyðar sem innihalda virka efnið glýfosat hafa talsvert verið í umræðu undanfarin misseri, sérstaklega vegna álitamála um hvort notkun þeirra geti verið hættuleg heilsu manna og mögulega valdið krabbameini. Rætt hefur verið hvort ástæða sé til að setja takmarkanir eða banna notkun á umræddum illgresiseyðum.

Ísland er, ásamt Noregi og Lichtenstein, aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og ber samkvæmt honum að innleiða reglugerðir Evrópusambandsins um plöntuverndarvörur sem þýðir að sömu reglur gilda hér á landi og í löndum EES. Áhættumati á virka efninu glýfosat lauk fyrir tæplega ári eftir langt ferli. Niðurstaðan varð að ekki væri hægt að sýna fram á það með fyrirliggjandi gögnum að efnið væri krabbameinsvaldandi. Framkvæmdastjórn ESB gaf út þessa niðurstöðu og var hún síðar staðfest í rýni af hálfu Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og Efnastofnunar Evrópu.

Mörg ríki í Evrópu hafa lýst því yfir eða tekið fyrstu skref í átt að því að takmarka almennt notkun á plöntuverndarvörum með því að setja fram aðgerðaáætlanir um að draga úr notkun þeirra og tengjast þær aðgerðir oft notkun illgresiseyða sem innihalda glýfosat. Stjórnvöld hér á landi hafa sett sér markmið í Aðgerðaáætlun um notkun varnarefna 2016-2031 í því skyni að draga út notkun plöntuverndarvara sem gæti leitt til sambærilegs samdráttar í notkun glýfosats eins og í öðrum ríkjum á EES.

Mun minni notkun hér

 Hér á landi er notkun illgresiseyða mun minni en gerist og gengur í öðrum ríkjum á EES. Umhverfisstofnun tekur saman gögn um markaðssetningu á plöntuverndarvörum og samkvæmt þeim voru á árinu 2017 fluttar til landsins plöntuverndarvörur í magni sem samsvarar 2.546 kg af virku efni. Þar af nam magn glýfosats 1004 kg eða 39%.

Langstærstur hluti notkunar á illgresiseyðum sem innihalda glýfosat fellur til í ýmiss konar ræktun s.s. í einka- og almenningsgörðum, á grænum svæðum á vegum sveitarfélaga, á íþróttavöllum og í sumarbústaðalöndum. Þá er mikið notað af þeim á ógrónum svæðum þar sem ekki er ætlast til að gróður sé til staðar eins og á iðnaðarsvæðum, við vegi, í innkeyrslum, á stígum og víðar. Helstu notendur eru almenningur, fyrirtæki, sveitarfélög og opinberar stofnarnir. Rétt er að benda á að notkun á glýfosati virðist vera lítil sem engin í framleiðslu á matvælum og fóðri hérlendis.

Í dag er staðan sú að sex illgresiseyðar sem innihalda glýfosat eru leyfilegir á markaði hér á landi. Þessi leyfi renna út um næstkomandi áramót en þrátt fyrir það verður heimilt að selja fyrirliggjandi birgðir til 30. júní 2019.

Ef markaðsetja á illgresiseyða sem innihalda glýfosat eftir 30. júní 2019 þarf að vera búið að veita þeim ný markaðsleyfi hér á landi og þau má veita allt til 15. desember 2023, eða einu ári lengur en samþykkið fyrir virka efninu.