Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Eftirlit Umverfisstofnunar með stíflueyðum á markaði hérlendis leiddi í ljós að einungis 29% þeirra voru með fullnægjandi merkingar. Allir voru þeir þó merktir á íslensku eins og krafa er gerð um í reglugerð og í öllum tilfellum voru barnheld öryggislok til staðar ef krafa er um slíkt.

Stíflueyðar innihalda yfirleitt sterkar sýrur eða basa, með ætandi eiginleikum, sem geta valdið mjög alvarlegum slysum ef þeir eru ekki meðhöndlaðir á réttan hátt. Til að tryggja örugga notkun er því lykilatriði að lesa á umbúðirnar áður en hafist er handa til að átta sig á hættunni sem af þeim getur stafað og hvernig eigi að bregðast við slysum. 

Í reglugerð eru gerðar kröfur um að þessar vörur séu merktar á íslensku með viðvörunarorði, stöðluðum hættu- og varnaðarsetningum, séu með barnheld öryggislok og að áþreifanleg viðvörun fyrir blinda og sjónskerta sé til staðar, upphleyptur þríhyrningur. Setningin „Veldur alvarlegum bruna á húð og augnskaða“ er dæmi um staðlaða hættusetningu sem líklegt er að finna megi á stíflueyðum.

Í eftirlitinu var skoðaður 21 stíflueyðir frá þeim 14 birgjum sem markaðssetja þessar vörur hér á landi í því skyni að kanna hvort merkingar og umbúðir væru í samræmi við ofangreindar kröfur. Þó að allar vörurnar væru með íslenskar merkingar, eins og krafa er um í reglugerð, reyndust 71% þeirra vera með einhver frávik, mismörg og af misalvarlegum toga. Algengustu frávikin fólust í því að orðalag hættu- og varnaðarsetninga var ekki í samræmi við reglugerð, að viðvörunarorð vantaði eða væri rangt og að áþreifanlega viðvörun vantaði.

Birgjum var veittur þriggja vikna frestur til að gera úrbætur á þeim merkingum sem ekki stóðust kröfur og skiluðu þeir flestir innan hans en nokkrir fengu þó viðbótarfrest. Þegar þessi frétt birtist er ennþá beðið eftir fullnægjandi viðbrögðum frá einum birgi.

Samantekt um verkefnið má nálgast með því að smella hér.