Stök frétt

Um sextíu manns tóku þátt í Ársfundi náttúruverndarnefnda sveitarfélaga, Umhverfisstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og náttúrustofa sem fram fór í Grindavík fimmtudaginn 10. nóvember síðastliðinn. Fundinum var einnig streymt.  

Fyrir hádegi var fjallað um hlutverk náttúruverndarnefnda og málefni þeirra. Eftir hádegishlé voru margvísleg málefni kynnt og rædd.  

Vilja skýrara hlutverk nátttúruverndarnefnda

Þátttakendur voru sammála um að þó hlutverk náttúruverndarnefnda sveitarfélaganna væri skilgreint í lögum um náttúruvernd þyrfti að gera það skýrara, e.t.v. með reglugerð.  

Nefndirnar eru gjarnan spyrtar saman með annarri nefnd viðkomandi sveitarfélags. Þær þurfa oft að veita umsagnir og taka afstöðu vegna t.d. umdeildra framkvæmda innan sveitarfélagsins og getur slíkt verið viðkvæmt þegar nálægðin er mikil.  

Hugmyndir komu fram um að umhverfisnefndir gætu starfað þvert á sveitarstjórnir eða verið landshlutabundnar. Faglegan stuðning geta þær sótt til náttúrustofu viðkomandi svæðis sem eiga mikið samstarf við sveitarfélögin og nærsamfélagið. Sveitarfélögin voru hvött til að nýta náttúrustofurnar.  

Náttúrustofurnar vilja jafnframt koma inn í umsagnarferli um framkvæmdir á fyrstu stigum þeirra. 

Náttúrufræðistofnun Íslands fær einnig margvísleg mál til umsagna frá sveitarfélögunum og veitir ráðgjöf, bæði formlega og óformlega. Sveitarstjórnir nýta upplýsingar á heimasíðu NÍ svo sem vefsjár. 

Dæmi um öflugt starf umhverfisnefnda kom fram hjá sveitarfélaginu Vogum en mikilvægt er að verkefni umhverfisnefnda séu sett inn í fjárhagsáætlun viðkomandi sveitarfélags.  

Áskoranir og tækifæri

Sagt var frá samstarfi Mosfellsbæjar, Reykjavíkur og Umhverfisstofnunar um friðlýsingu Leiruvogs og Blikastaðakróar sem gekk mjög vel en svæðið var friðlýst nú í haust.  

Þá var fjallað um þær áskoranir sem Umhverfisstofnun ásamt Grindavíkurbæ og fleiri aðilar stóð frammi fyrir á tímum eldgosa nú nýlega þar sem fjöldi fólks þyrptist að svæðinu yfir skamman tíma. 

Fjallað var um framandi tegundir í höfnum á Íslandi sem er ógn við líffræðilegan fjölbreytileika í heiminum. Þær hafa bæði áhrif á tegundafjölbreytileika og efnahagsmál. Vöktun á tegundunum hófst árið 2018 en engin stefnumótun er til um málið.  

Þá var sagt frá annarri vöktun þar sem fylgst er með plasti í meltingarvegi fýla og þeir notaðir sem ávitar á plastmengun. Plastagnir hafa bæði mikil áhrif á afkomu fuglanna sjálfra og umhverfið.  

Að lokum var erindi um hringrásarhagkerfið og mikilvægi þess að sveitarfélög geri hringrásarlausnir sjálfsagðan kost fyrir íbúana. 

Eftir fundinn bauð Grindavíkurbær upp á gönguferð um bæinn.  

Dagskrá og glærur frá fundinum

Myndir frá fundinum

 

Upptaka af fundinum