Starfsmannastefna

Umhverfisstofnun vill hafa á að skipa frábæru starfsfólki sem vinnur í anda stefnu, markmiða og gilda stofnunarinnar. Gildi Umhverfisstofnunar eru fagmennska, framsýni, samvinna og virðing

Hjá okkur starfar metnaðarfullt fólk með þekkingu og reynslu sem ber hagsmuni umhverfisins fyrir brjósti. Við ráðningar förum við eftir faglegu ferli og leitum að hæfasta starfsfólkinu, sem völ er á og úrvals samstarfsfólki. Við leggjum okkur fram við að taka vel á móti nýju starfsfólk, bæði faglega og félagslega. Framsýni skiptir okkur miklu máli sem og endurnýjun fagþekkingar. 

Það skiptir miklu máli að starfsfólk sé ánægt og því líði vel í vinnunni. Vinnutími er sveigjanlegur að ákveðnu marki sem fólk er ánægt með og hentar fjölskyldufólki sérstaklega vel. Starfsmannafélögin eru öflug og fjöldi viðburða eru haldnir á hverju ári. 

Við vinnum mikið saman og nýtum þá þekkingu sem starfsfólk hefur yfir að ráða. Starfsmenn raðast niður á teymi sem bera ábyrgð á tilgreindum málefnum. Reynt er að dreifa vinnuálagi eins og kostur er og fylgst er með framgangi verkefna. Við erum með starfsstöðvar um allt land og lítum það jákvæðum augum ef fólk vill færa sig til á milli starfsstöðva. 

Við berum virðingu fyrir störfum og fagþekkingu hvers annars sem og einkalífi. Við teljum að fjölbreytileiki sé jákvæður s.s. hvað varðar kynferði, aldur, kynhneigð og þjóðernisuppruna. Við viljum að jafnrétti og samþætting kynjasjónarmiða séu hluti af stofnanamenningu okkar. Einelti og kynferðisleg áreitni eru ekki liðin. 

Umhverfi og góð heilsa skipta okkur máli og þess vegna greiðir stofnunin sérstaka styrki til starfsfólks vegna líkamsræktar og umhverfisvænna samgangna. Stofnunin hvetur sitt starfsfólk til að ferðast á hjóli, í strætó eða tveimur jafnfljótum.