Umhverfistofnun - Logo

Rotþrær og siturlagnir

Í þéttbýli á að losa húsaskólp einstakra húsa inn á fráveitu sé hún til staðar. Þar sem fráveita er ekki til staðar skal hreinsa skólp sérstaklega frá hverju húsi eða hverri þyrpingu fárra húsa. Slíkt er gert t.d. með rotþró.

Heilbrigðisnefndir um allt land hafa eftirlit með fráveitum og þar sem ekki er hægt að tengjast fráveitukerfi sveitarfélags, á að leita til heilbrigðiseftirlita um leiðbeiningar og samþykki fyrir fráveitu. Hreinsivirki fráveitu eiga að koma fram á lóðaruppdrætti húsa skv. byggingareglugerð sem er mikilvægt til að auðvelda viðhald og eftirlit. 

Losun skólps má aldrei eiga sér stað þar sem hætta er á að vatnsból spillist. Hafa skal í huga að rennsli grunnvatns fylgir oft ekki halla á yfirborði en grunnvatnið streymir hinsvegar ætíð frá hærra grunnvatnsborði að lægra. Þar sem neysluvatni er dælt upp, t.d. úr borholu, má gera ráð fyrir að næst vatnstökunni halli yfirborði grunnvatnsins að dælunni og skal ekki losa skólp nálægt slíkum niðurdrætti.

Tveggja þrepa hreinsun felst m.a. í rotþró (fyrsta þrep) og siturlögn (annað þrep). Ef aðstæður eru réttar er rotþró og siturlögn fremur ódýr lausn fyrir einstök íbúðarhús og krefst tiltölulega lítils viðhalds.

Rotþró skilur föst efni frá skólpinu á þann hátt að þyngri efnin setjast á botninn (botnlag) en fita og önnur léttari efni fljóta upp (flotlag). Þegar rotnun er komin af stað í rotþrónni brotna lífræn efni niður. Hinsvegar safnast smám saman upp efni sem brotna hægt niður og er því nauðsynlegt að tæma hana reglulega.

Á Íslandi er gerð krafa um þriggja hólfa rotþrær, en fleiri en þrjú hólf eru óþörf. Í rotþró má veita frárennsli frá salernum, eldhúsum og þvottahúsum. Hitaveituvatn úr ofnakerfum og afrennsli frá heitum pottum ætti ekki að leiða í rotþró. Sé það gert þarf að nota mun stærri rotþró en ella auk þess sem hugsanlegur klór frá heita pottinum hefur eituráhrif á bakteríur í rotþrónni og kemur þannig í veg fyrir niðurbrot lífrænu úrgangsefnanna. Af þeirri ástæðu á t.d. alls ekki að nota bakteríudrepandi þvottalög, t.d. þegar salerni eða önnur hreinlætistæki eru þrifin. Ef eitrað er fyrir bakteríunum í rotþrónni breytist virkni hennar þannig að hún þjónar aðeins sem safnþró og fyllist þar með fyrr en ella.

Aldrei má leiða skólp beint úr rotþró út í umhverfið heldur á það að fara um siturlögn sem hefur þann megintilgang að hreinsa uppleyst lífræn efni úr skólpinu.

Rotþrær og siturlagnir skulu allar vera vottaðar samkvæmt ISO staðli EN12566.