Umhverfistofnun - Logo

Spá um losun

Íslandi ber að skila skýrslu til ESB um stefnur og aðgerðir sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, ásamt því að framreikna út frá þeim losun fram til ársins 2035. Í ár skilaði Umhverfisstofnun í fyrsta sinn slíkri skýrslu til ESB en hún mun framvegis verða lykilverkfæri í því að meta jafnóðum hverju fyrirhugaðar aðgerðir skila í samdrætti á losun. Upplýsingunum í skýrslunni mun einnig vera skilað til UNFCCC í tvíæringsskæyrslu (Biennial Report) sem skilað verður í lok árs.

Íslenskan útdrátt úr skýrslu um stefnur og aðgerðir og framreiknaða losun Íslands 2019, ásamt  heildarskýrsluna á ensku má finna undir síðunni „Skýrslur og ítarefni“.

Mikil undirbúningsvinna hefur átt sér stað við að safna saman upplýsingum um stefnur og aðgerðir í samráði við hagaðila úr ýmsum áttum en auk þess var stuðst við áætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í loftslagsmálum. Skýrslan bregður upp sviðsmynd sem sýnir mögulegan samdrátt í losun árið 2035 út frá árangri þeirra aðgerða sem þegar hafa verið tölusettar, kostnaðarmetnar og eru annað hvort þegar komnar af stað eða búið að staðfesta að hefjist innan skamms. Í aðgerðaráætlun í loftslagsmálum voru 6 af 34 aðgerðum því metnar til samdráttar í losun miðað við þessar forsendur. Þrátt fyrir að tekist hafi að meta fáar þeirra aðgerða sem ákveðnar hafa verið sýndi framreiknun samdrátt til ársins 2030 um 19% af losun gróðurhúsalofttegunda miðað við árið 2005. Það er því enn til mikils að vinna og gera má ráð fyrir að endanleg útfærsla aðgerðaráætlunarinnar muni sýna fram á enn meiri samdrátt í losun. Mestan samdrátt í losun mátti sjá vegna aðgerða sem tengjast rafbílavæðingu landsmanna.