Staða losunar á Íslandi


Lykiltölur

Í þessari vefsamantekt er fjallað um sögulega losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi (1990-2022) og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum (einnig aðgengileg sem PDF skjal). Ítarlegri gögnum um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi má hlaða niður hér.

  • 12,4 milljón tonn
    Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi var 12,4 milljón tonn af CO2-ígildum (CO2-íg.) árið 2022 og hefur aukist um 9% frá árinu 1990. Losun náði hámarki árið 2008 og hefur síðan þá dregist saman um 4,5%.
  • 4,7 milljón tonn
    Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi án landnotkunar var 4,7 milljón tonn af CO2-íg. árið 2022 og hefur aukist um 28% frá árinu 1990.
  • 2,8 milljón tonn
    Samfélagslosun Íslands var 2,8 milljón tonn af CO2-íg. árið 2022 og hefur dregist saman um 11% frá árinu 2005. Ísland mun samkvæmt því standast skuldbindingar um samdrátt í samfélagslosun fyrir árið 2022.
  • 7,8 milljón tonn
    Losun frá landnotkun var 7,8 milljón tonn CO2-íg. árið 2022 og hefur verið frekar stöðug milli ára. Samkvæmt því mun Ísland líklega standast skuldbindingar fyrir landnotkun fyrir árið 2022.
  • 1,9 milljón tonn
    Losun frá staðbundnum iðnaði innan ETS-kerfisins á Íslandi var 1,9 milljón tonn CO2-íg. árið 2022 sem er 120% aukning frá árinu 2005.

 

Ávarp forstjóra

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar

Árið 2023 var sögulegt. Það var:
  • heitasta ár mannkynssögunnar,
  • árið með mestu losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu til þessa.

Afleiðingar þessarar losunar af mannavöldum eru þegar orðnar alvarlegar og farnar að hafa áhrif á fólk og samfélög um allan heim. Áhrifanna gætir einnig á Íslandi til dæmis í aukinni tíðni skriðufalla.

Frá því að iðnbyltingin hófst um miðja 18. öld hefur losun gróðurhúsalofttegunda aukist nánast undantekningalaust ár hvert. Styrkleiki koldíoxíðs í andrúmslofti jarðar hefur aukist um rúman helming. Þessi mikli styrkleiki koldíoxíðs hefur orðið til þess að tíðni og öfgar veðurtengdra náttúruhamfara hafa aukist til muna.

Árið 2023 gæti einnig hafa verið sögulegt á annan hátt. Vísbendingar eru um að losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu hafi mögulega náð hámarki og að hún muni dragast saman héðan í frá.

Allar þessar upplýsingar höfum við þökk sé vandaðri gagnaöflun og -vinnslu. Losunarbókhald Íslands er hluti af þessari flóru upplýsinga sem hefur það markmið að veita okkur innsýn inn í stöðu losunar gróðurhúsalofttegunda í fortíð, nútíð og framtíð. Þetta bókhald er lykiltól til að stjórnvöld, fyrirtæki og almenningur geti tekið upplýstar ákvarðanir um loftslagsmál á Íslandi.

Umhverfisstofnun leggur mikla áherslu á stöðugt umbótastarf í losunarbókhaldinu sem er lykilatriði hvað varðar áreiðanleika upplýsinganna. Sífellt bætast við gögn, samanburðarupplýsingar og leiðbeiningar sem skila sér í uppæfrslu á tölum um losun frá nær öllum geirum samfélagsins á hverju ári.

Uppfærsla á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er nú að líta dagsins ljós. Markmið hennar er að auka árangur til að standa við markmið og skuldbindingar Íslands um samdrátt í losun. Regluleg uppfærsla aðgerðaáætlunar er lykilatriði.

Við þurfum öll að taka höndum saman um að snúa ógnvænlegri þróun loftslagsbreytinga við. Leita þarf skilvirkustu leiða til að draga úr álagi nútímalifnaðarhátta á náttúruna. Í því sambandi skipta nýsköpunarlausnir, með sjálfbærni að leiðarljósi, miklu máli.

Samstaða í samfélaginu, samstarf við almenning og atvinnulífið með skýra sýn að leiðarljósi, skilar okkur árangri inn í framtíðina þannig að við munum sjá samdrátt í losun birtast í losunarbókhaldi Íslands.

 


Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi var 12,4 milljón tonn af CO2-ígildum (CO2-íg.) árið 2022 og hefur aukist um 9% frá árinu 1990. Losun náði hámarki árið 2008 og hefur dregist nokkuð saman síðan.

 

Mynd: Fífa Jónsdóttir

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi skiptist í losun vegna orku, iðnaðarferla og vörunotkunar, landbúnaðar, úrgangs og landnotkunar. Viðtekin venja er að tala um heildarlosun án alþjóðasamgangna en ýmist með eða án losunar vegna landnotkunar. Þetta er vegna sérstöðu þessara tveggja flokka í samhengi skuldbindinga og ábyrgðar ríkja á þeim.


 


Ísland er aðili að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (e. United Nations Framework Convention on Climate Change; UNFCCC) og öll útfærsla skuldbindinga í loftslagsmálum hér á landi tekur mið af alþjóðlegu og evrópsku regluverki. Hluti af því regluverki er að skila árlega landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Losun Íslands má almennt skipta í þrjá meginflokka þegar hún er skoðuð út frá skuldbindingum gagnvart ESB. Flokkarnir eru samfélagslosun (e. Effort Sharing Regulation; ESR), landnotkun (e. Land Use, Land-Use Change and Forestry; LULUCF) og losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (e. EU Emissions Trading System; EU ETS) (sjá mynd).

Samfélagslosun innihelldur aðallega losun frá vegasamgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, jarðvarmavirkjunum, vörunotkun og úrgangi. Undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir fellur losun frá stóriðju, flugi og skipaflutningum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Losun frá landnotkun á við um alla losun og bindingu vegna hvers konar landnotkunar (sjá frekari skilgreiningu í kafla 4).


 


 

Alþjóðlegar skuldbindingar

Fyrir Parísartímabilið (2021-2030) hafa aðildarríki ESB, auk Íslands og Noregs, sett sér sameiginlegt markmið um 55% samdrátt í losun árið 2030 miðað við 1990 (sjá mynd). Til að ná markmiðinu árið 2030 þurfa löndin á þessu svæði í heild sinni að:

  • draga úr losun frá uppsprettum sem falla undir samfélagslosun ríkjanna um 40% m.v. losun ársins 2005,
  • ná 310 milljón tonn nettóbindingu frá uppsprettum sem flokkast undir landnotkun,
  • draga úr losun frá uppsprettum sem falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir um 62% m.v. losun ársins 2005.

Það markmið sem snýr að ETS-kerfinu er samevrópskt og því er ekki gert ráð fyrir að einstök ríki nái fram þeim 62% samdrætti sem kerfinu er ætlað að ná fyrir árið 2030. Fyrir losun og bindingu innan landnotkunar og samfélagslosunar fá ríkin hinsvegar úthlutað hlutdeildarmarkmiði sem endurspeglar stöðu og getu ríkjanna til samdráttar. Hlutdeildarmarkmið fyrir samfélagslosun Íslands hefur ekki verið staðfest en talið er líklegt að það feli í sér samdrátt í samfélagslosun um 41% árið 2030 miðað við losun árið 2005. Núverandi markmið um samdrátt í samfélagslosun er 29% árið 2030 og hefur Ísland nú náð 11% samdrætti árið 2022. Ekki liggur fyrir hvert hlutdeildarmarkmið Íslands fyrir uppfært landnotkunarmarkmið ESB verður en núverandi markmið er að nettólosun aukist ekki miðað við tiltekin viðmiðunartímabil.

Sjálfstæð landsmarkmið

Fyrir utan alþjóðlegar skuldbindingar hefur Ísland einnig sett sér sjálfstæð landsmarkmið. Annars vegar kemur fram í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að Ísland muni setja sér sjálfstætt markmið, fyrir samfélagslosun, um 55% samdrátt árið 2030 miðað við losun ársins 2005 (sjá mynd). Þar að auki hefur Ísland sett sér markmið um að ná kolefnishlutleysi árið 2040.

Skil Umhverfisstofnunar

Árlega skilar Umhverfisstofnun landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (e. National Inventory Report; NIR) til ESB og UNFCCC. Skýrslan inniheldur losunarbókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti á Íslandi.

Annað hvert ár skilar Umhverfisstofnun skýrslu og upplýsingum um stefnur, aðgerðir og framreiknaða losun til ESB fyrir hönd Íslands, síðast árið 2023. Í þeirri skýrslu má finna framreiknaða losun til ársins 2050. Í skýrslunni eru tvær sviðsmyndir, grunnsviðsmynd og viðbótarsviðsmynd, sem byggja á mismunandi forsendum.


Markmið ESB, Íslands og Noregs um 55% samdrátt

*Þessi tala er ekki staðfest en er áætluð út frá þeim reiknireglum sem ESB hefur notað við úthlutun samdráttarmarkmiða einstakra landa í fortíðinni þegar önnur heildarmarkmið voru gildandi fyrir svæðið í heild.

Mynd: Fífa Jónsdóttir



Samfélagslosun inniheldur aðallega losun frá vegasamgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, jarðvarmavirkjunum, vörunotkun og úrgangi. Árið 2022 var samfélagslosun Íslands 2,8 milljón tonn CO2-íg. Umfangsmestu losunarflokkarnir undir samfélagslosun Íslands eru vegasamgöngur, landbúnaður og fiskiskip. Saman telja þeir 72% af samfélagslosun Íslands.

  • Milli áranna 2021 og 2022 stóð samfélagslosun Íslands um það bil í stað.
  • Samfélagslosun hefur dregist saman um 11% frá árinu 2005.
  • Hlutdeild Íslands, samkvæmt bráðabirgðaútreikningum, í sameiginlegu markmiði ESB, Íslands og Noregs um 55% samdrátt verður að draga úr samfélagslosun um 41% árið 2030 miðað við árið 2005. Núgildandi markmið er 29%.
  • Til þess að mæta væntanlegum skuldbindingum um 41% samdrátt fær Ísland árlegar losunarúthlutanir. Fyrir árið 2022 var magn þeirra rúmlega 2,8 milljónir tonna CO2-íg. Ísland hefur uppfyllt kröfur um samdrátt fyrir árin 2021 og 2022. Það þýðir að Ísland á inni sveigjanleika sem hægt er m.a. að flytja milli ára samkvæmt reglum um sveigjanleikaákvæði.

Í töflunni að neðan má sjá helstu breytingar í samfélagslosun Íslands milli áranna 2021 og 2022 skipt eftir undirflokkum.

Losunarflokkur Breyting Þús. tonn
CO2-íg.
% Skýring
Fiskimjölsverksmiðjur Aukning +57 463 Skerðing á raforku
Vegasamgöngur Aukning +66 8 Aukin eldsneytiskaup
Jarðvarmavirkjanir Aukning +11 6 Náttúrulegur breytileiki
Landbúnaður Samdráttur -16 3 Fækkun sauðfjár
Fiskiskip Samdráttur -88 15 Minni eldsneytiskaup hérlendis
Kælimiðlar Samdráttur -29 18 Útfösun eldri kælimiðla
 

Vegasamgöngur (33%)

Losun frá vegasamgöngum nam 926 þús. tonnum CO2-íg. árið 2022.

  • Losun frá vegasamgöngum náði hápunkti árið 2018 og nam þá 977 þús. tonn CO2-íg. í kjölfar metárs í fjölda ferðamanna og dróst lítillega saman árið 2019. 
  • Með heimsfaraldri árið 2020 var losunin töluvert minni og nam þá 831 þús. tonn CO2-íg.
  • Aukning í losun milli áranna 2021-2022 nam 66 þús. tonnum CO2-íg. og 151 þús. tonnum CO2-íg. frá árinu 2005.
  • Losun á hvern ekinn kílómetra hefur minnkað um 20% milli áranna 2018-2022.

Landbúnaður (22%)

Losun frá landbúnaði nam 596 þús. tonnum CO2-íg. árið 2022. Meginorsök samdráttar í losun frá landbúnaði er fækkun búfjár.

  • Stærstur hluti losunar frá landbúnaði er vegna sauðfjár- og nautgriparæktar, en iðragerjun og meðhöndlun búfjáráburðar í þeim greinum er uppspretta 56% losunar frá landbúnaði eða 334 þús. tonn CO2-íg.
  • Samdráttur í losun milli áranna 2021 og 2022 nam 16 þús. tonnum CO2-íg. sem skýrist að miklu leyti af fækkun sauðfjár. Samdráttur frá 2005 nam 7,6 þús. tonnum CO2-íg.

Fiskiskip (17%)

Losun frá fiskiskipum nam 482 þús. tonnum CO2-íg. árið 2022.

  • Losun frá fiskiskipum er háð eldsneytisnotkun og hefur losunin dregist saman um 88 þús. tonn CO2-íg. milli áranna 2021 og 2022.
  • Losun frá fiskiskipum hefur dregist saman um 35% eða 261 þús. tonn CO2-íg. milli 2005 og 2022.
 
 


Losun og binding vegna landnotkunar skiptist í sex undirflokka: mólendi, ræktað land, votlendi, byggð, viðarvörur og skóglendi. Nettólosun vegna landnotkunar á Íslandi var 7,8 milljón tonn CO2-íg. árið 2022. Umfang losunar innan landnotkunarflokksins á Íslandi er að mörgu leyti frábrugðin losun og bindingu undir þessum flokki í öðrum ríkjum. Flest Evrópuríki eru með meiri bindingu en losun, þ.e. nettóbindingu, í landnotkunarflokknum en á Íslandi er losunin mun meiri en bindingin, þ.e. hér er nettólosun en ekki nettóbinding. Það má rekja m.a. til umfangsmikillar stærðar framræsts lands, og stærðar skóga á Íslandi sem er lítil í samanburði við önnur ríki.

  • Stærstu uppsprettur losunar vegna landnotkunar eru mólendi (77%), ræktað land (19%) og votlendi (11%).
  • Meirihluti losunar frá landnotkun stafar af framræstu votlendi og er sú losun talin fram bæði undir mólendi og ræktuðu landi eftir aðstæðum.
  • Losun sem fellur undir skuldbindingarflokkinn landnotkun var 7,8 milljón tonn CO2-íg. árið 2022 og er það um 62% af heildarlosun Íslands árið 2022.
  • Losun frá landnotkun jókst um tæplega 1% milli áranna 2021-2022 og um 0,3% á tímabilinu 1990-2022.
  • Nettóbinding í skóglendi á Íslandi var um 505 þús. tonn CO2-íg. árið 2022 en einnig er losun frá skóglendi þó hún sé mun minni en bindingin og er sömuleiðis binding í öðrum undirflokkum landnotkunar þó að losun þeirra sé í flestum tilvikum umfangsmeiri en bindingin.
  • Binding kolefnis í skóglendi hefur 17-faldast á árunum 1990-2022.

Nokkrar breytingar hafa orðið á losun mismunandi landnotkunarflokka vegna nýrra skilgreiningaratriða á flokkun votlendis í yfir 200 metra hæð yfir sjávarmáli. Við þetta minnkar nettólosun vegna landnotkunar um tæplega 1,7 milljón tonn CO2-íg. í samanburði við fyrri útreikninga. Þessi breyting á þó við um útreikninga á losun fyrir alla tímalínuna milli 1990 og 2022 þannig að ekki er um að ræða samdrátt í losun milli ára. Stefnt er að frekari úrbótum á losunarbókhaldinu á næstu árum sem mun einnig draga enn frekar úr óvissu.

Leiðréttingar hafa einnig verið gerðar á útreikningi frá ræktuðu landi í samráði við ráðgefandi aðila erlendis. Þannig er áætluð losun frá ræktarlandi um 29% minni en fyrri útreikningar gerðu ráð fyrir. Þegar slíkar leiðréttingar eru innleiddar er það gert fyrir gögnin yfir alla tímalínuna aftur til 1990.

Skuldbindingar í landnotkun

Útlit er fyrir að Ísland muni standast skuldbindingar sínar fyrir árin 2021 og 2022 þar sem árleg nettólosun áranna má ekki vera meiri en meðaltal nettólosunar á viðmiðunartímabilum. Það fer eftir landnotkunarflokkum hvernig losun og binding frá landnotkun telur gagnvart ESB skuldbindingum og eru uppgjörsreglurnar einnig ólíkar milli fyrra (2021-2025) og seinna (2026-2030) skuldbindingatímabils.

Mólendi

Þessi flokkur er stærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda á Íslandi eða um 6 milljón tonn CO2-íg. árið 2022. Losun koltvísýrings frá mólendi kemur að mestu leyti frá votlendi sem hefur verið framræst í 20 ár eða meira og hefur aukin framræsla á síðustu áratugum leitt til aukinnar losunar.

Votlendi

Árið 2022 var losun frá votlendi á Íslandi 845 þúsund tonn CO2-íg. Endurheimt votlendis dregur úr losun CO2, eykur upptöku CO2 en eykur jafnframt losun metans (CH4) sem stafar af náttúrulegu ferli sem er dæmigert fyrir mýrarsvæði. Þrátt fyrir að metan sé 28 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur verður nettósamdráttur í losun við endurheimt votlendis.

Ræktað land

Ræktað land er stór uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda en árið 2022 var hún 1,4 milljón tonn CO2-íg. Ræktað land er land sem notað er í landbúnaði til ræktunar á grasi, korni og öðrum landbúnaðarafurðum svo sem kartöflum.

Skóglendi

Flokkurinn skóglendi er með meiri bindingu en losun. Bindingin hefur aukist mikið frá árinu 1990, eða úr tæplega 30 þúsund tonnum í rúmlega 505 þúsund tonn CO2-íg. árið 2022. Gert er ráð fyrir áframhaldandi aukningu í bindingu frá skóglendi. Helstu ástæður þessa eru aukin árleg nýskógrækt og vaxandi binding núverandi skóga með auknum aldri þeirra.

 


Undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir fellur losun frá staðbundnum iðnaði, flug og skipaflutningum innan EES. Árið 2022 var losun frá staðbundnum iðnaði (þ.e. ál- og kísilverum) innan ETS-kerfisins á Íslandi 1,9 milljón tonn CO2-íg. sem er 120% aukning frá árinu 2005. Milli áranna 2021 og 2022 jókst losun frá staðbundnum iðnaði innan ETS-kerfisins á Íslandi um tæplega 2% og má að mestu leyti rekja það til 9% aukningar í losun vegna kísilmálmframleiðslu á tímabilinu (sjá mynd). Sérstaklega er gerð grein fyrir losun frá flugi sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Viðskiptakerfi með losunarþaki (e. cap-and-trade system)

  • Árlega gefur ESB út losunarheimildir og fjöldi þeirra samsvarar heildarlosun sem er heimil frá kerfinu það árið.
  • Fjöldi losunarheimilda fer fækkandi ár frá ári.
  • Hluta losunarheimilda er úthlutað endurgjaldslaust til rekstraraðila og flugrekenda í ETS-kerfinu en hluti þeirra er boðinn upp á þar til gerðum uppboðsvettvangi. Losunarheimildir ganga kaupum og sölum milli aðila sem falla undir ETS-kerfið og annarra þar sem viðskipti með þær eru frjáls.
  • ETS-kerfinu er því bæði ætlað að tryggja að samdráttur í losun eigi sér stað og að hann eigi sér stað þar sem það er hagstæðast.

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir er einn af hornsteinum ESB við að ná samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á sem hagkvæmastan hátt. Flugstarfsemi hefur fallið undir gildissvið kerfisins frá 2012 og saðbundinn iðnaður frá 2013 en frá og með 2024 falla auk þess sjóflutningar undir kerfið.


 


Gerð er grein fyrir losun frá alþjóðasamgöngum, þ.e. millilandaflugi og millilandasiglingum í losunarbókhaldi Íslands. Losun vegna alþjóðasamgangna jókst um 88% milli áranna 2021 og 2022 eftir að öllum takmörkunum var aflétt vegna heimsfaraldurs. Þessa aukningu má rekja til 77% aukningar í losun frá alþjóðaflugi og 124% aukningar í losun frá alþjóðasiglingum á tímabilinu. Þessi mikla aukning skýrist af miklum samdrætti á tímum heimsfaraldurs. Losunin hefur þó ekki náð sömu hæðum og fyrir heimsfaraldur og er nú 12% minni en árið 2019.

Eðli alþjóðasamgangna er þó þannig að það getur reynst ómarkvisst að úthluta ábyrgð vegna losunar þeirra á einstök ríki með afgerandi hætti. Þær reglur sem almennt gilda um losun vegna alþjóðasamgangna í landsskýrslum er að allt eldsneyti sem selt er innan landamæra hvers ríkis til alþjóðasamgangna fellur í losunarbókhald þess ríkis.

Þetta þýðir að losun frá flugrekanda sem millilendir á Íslandi til að taka hér eldsneyti er talin fram í losunarbókhaldi Íslands. Þetta skekkir myndina að vissu leyti og er það m.a. þess vegna sem alþjóðasamgöngur eru teknar fram í viðauka (e. memorandum items) í landsskýrslum. Þar af leiðandi telja alþjóðasamgöngur ekki í heildarlosun en hluti af þeim er talinn fram og gerður upp innan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir.

Ferðamannastraumur, ferðalög og aukin losun

Losun frá alþjóðasamgöngum náði hápunkti árið 2018 þegar metfjöldi ferðamanna kom til Íslands. Þá var losunin 1,5 milljón tonn CO2-íg. sem var um það bil jafn mikið og öll losun frá vegasamgöngum og fiskiskipum samanlagt. Þar af var losun frá millilandaflugi 1,3 milljón tonn CO2-íg.


 

Kynning á losunarbókhaldi Íslands

Hér fyrir neðan má sjá upptöku af kynningu á losunarbókhaldi Íslands frá Loftslagsdeginum sem Umhverfisstofnun hélt í Hörpu þann 28. maí 2024. Kynningin inniheldur umfjöllun um losun gróðurhúsalofttegunda undir öllum skuldbindingaflokkunum þremur sem fjallað er um í þessari vefsamantekt. Einnig er hægt að spóla fram og aftur í upptökunni til að sjá öll hin erindin sem voru haldin á Loftslagsdeginum 2024.