Umhverfistofnun - Logo

Drangar á Ströndum

Áform um friðlýsingu jarðarinnar Dranga í Árneshreppi á Ströndum

Umhverfisstofnun, ásamt landeigendum og sveitarfélaginu Árneshreppi, kynnir hér með áform um friðlýsingu jarðarinnar Dranga á Ströndum sem óbyggð víðerni sbr. 46. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og sem landslagsverndarsvæði sbr. 50. gr. laganna.

Jörðin Drangar er yfir 100 km2 að flatarmáli og nær frá hábungu Drangajökuls að sjó á milli Bjarnarfjarðar og Drangavíkur. Drangar eru landnámsjörð, þar nam land Þorvaldur Ásvaldsson, hans sonur var Eiríkur rauði er flutti síðar til Grænlands, en sonur hans var Leifur heppni. Eiríkur bjó á Dröngum eftir föður sinn og færa má líkur að því að þar hafi Leifur sonur hans fæðst. Land jarðarinnar er að langmestu leyti óbyggð víðerni. Landslag er tilkomumikið, jarðfræði fjölbreytileg, gróðurfar sérstakt og náttúrufegurð almennt mikil á svæðinu. Dalir og hvilftir eru grafnar af jöklum ísaldar í almennt einsleitan og mjög reglulegan jarðlagastafla. Á milli basalthraunlaga eru rauðleit setlög, oftast forn jarðvegur að uppruna. Víðernisupplifun er mikil og svæðið nær óraskað. Svæðið er hluti af víðáttumesta, samfellda óbyggða víðerni á Vestfjörðum.

Tillaga að friðlýsingarmörkum miðast við hnitsett mörk skv. hnitaskrá og eru birt á korti.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við málsmeðferð 2. og 3. mgr. 36. gr. náttúruverndarlaga, sbr. 2. mgr. 38. gr. laganna en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár séu kynnt sérstaklega. Í kjölfar kynningartímans munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, landeigenda og Árneshrepps vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Fyrirhuguð friðlýsing mun að lokum verða auglýst opinberlega í þrjá mánuði og öllum gefinn kostur á gera athugasemdir við framlagða tillögu.

Friðlýsingin miðar að því að varðveita einkenni svæðisins, viðhalda fjölbreyttu og óvenjulegu landslagi sem og víðsýni, vernda heildstæð stór vistkerfi og tryggja að núlifandi og komandi kynslóðir geti notið einveru og náttúru svæðisins án truflunar af umfangsmiklum mannvirkjum og umferð vélknúinna farartækja. Einnig miðar friðlýsingin að því að varðveita sérkenni og einkenni landslagsins, fagurfræðilegt og menningarlegt gildi þess. Í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að kveða nánar á um takmarkanir sem leiða af friðlýsingunni, m.a. á umferðarrétti, notkun veiðiréttar og framkvæmdum. Þá er jafnframt heimilt að kveða á um að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi viðkomandi svæðis.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 23. ágúst 2019. Athugasemdum má skila hér að neðan, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Frekari upplýsingar veita Eva B. Sólan Hannesdóttir (evasolan@ust.is) og Kristín Ósk Jónasdóttir (kristinosk@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.

Upplýsingar

Skrár