Umhverfistofnun - Logo

Skógafoss og nágrenni

Áform um endurskoðun friðlýsingar Skógafoss og nágrennis

Umhverfisstofnun kynnir hér með áform um endurskoðun friðlýsingar Skógafoss og nágrennis, í samræmi við 48. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Um er að ræða breytingar á mörkum náttúruvættisins, umsjón svæðisins og endurskoðun á friðlýsingarskilmálum.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstakar náttúruminjar, Skógafoss og ásýnd hans, vistgerðir og líffræðilega fjölbreytni, sem og ánna sjálfa og fossaröð hennar. 

Tillaga að friðlýsingarmörkum miðast við hnitsett mörk skv. hnitaskrá og eru birt á korti.

Skógafoss er í ánni Skógá undir Eyjafjöllum, 60 metra hár og þykir einn fegursti foss landsins. Hann er 15 metra breiður og svipmikill þar sem hann fellur fram af bergbrún niður í hyl á flatlendinu. Í kringum 30 tegundir vistgerða eru innan náttúruvættisins. Þeirra á meðal eru vistgerðir sem teljast til flokks með mjög hátt verndargildi og aðrar í hópi vistgerða sem  vernda skal samkvæmd Bernarsamningnum. Þá verpir fýll í hömrunum umhverfis fossinn, en tegundin er á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 2018 yfir tegundir í hættu. Svæðið hefur um árabil verið vinsæll og fjölsóttur áningarstaður ferðamanna og innan marka náttúruvættisins liggur ein vinsælasta gönguleið landsins, Fimmvörðuháls. 

Áform um friðlýsinguna eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki er á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega. Í kjölfar kynningartímans munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, Rangárþings Eystra, landeiganda og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir þá sem hagsmuna eiga að gæta. Fyrirhuguð friðlýsing mun að lokum verða auglýst opinberlega í þrjá mánuði og öllum gefinn kostur á gera athugasemdir við framlagða tillögu.

Friðlýsingin miðar að því að varðveita einkenni og sérstöðu svæðisins. Í auglýsingum um friðlýsingar er heimilt að kveða nánar á um takmarkanir sem leiða af friðlýsingunni. Þá er jafnframt heimilt að kveða á um að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi viðkomandi svæðis.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 4. desember 2020. Athugasemdum má skila á eyðublaði hér fyrir neðan, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

 Umhverfisstofnun vekur athygli á því að innsendar athugasemdir eru hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhentar þriðja aðila sé þess óskað í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012.

Frekari upplýsingar veita Aron Geir Eggertsson, aron.geir@ust.is  og Freyja Pétursdóttir, freyjap@ust.is með tölvupósti eða í síma 591-2000.

Tengd skjöl:
Skógafoss og nágrenni - hnitaskrá 

 

Senda ábendingu

Upplýsingar

Skrár