Umhverfistofnun - Logo

Verndarsvæði norðan Dyrfjalla og náttúruvættið Stórurð

Verndarsvæði norðan Dyrfjalla og náttúruvættið Stórurð

Tillaga að friðlýsingu verndarsvæðis norðan Dyrfjalla og náttúruvættisins Stórurðar
Umhverfisstofnun leggur hér með fram tillögu að friðlýsingu verndarsvæðis norðan Dyrfjalla og náttúruvættisins Stórurðar í samræmi við ákvæði 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Tillagan er unnin af samstarfshópi sem í eiga sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, sveitarfélags, landeigenda jarðanna Hrafnabjarga, Unaós-Heyskála og Sandbrekku og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. 

Svæðið sem lagt er til að verði friðlýst er hluti Dyrfjallaeldstöðvarinnar og er staðsett ofan á þykkum basalthraunum. Innan svæðisins er að finna elstu hraun sem fundist hafa á Austfjörðum, um 13,5 milljón ára. Í hömrunum milli Stapavíkur og Selvogsnes er einnig að finna líparít bergganga.

Stórurð er gömul skriða sem féll ofan í Urðardal sem einkennist af stórum björgum og stórgrýti. Innan um stórgrýtið eru litlar tjarnir og sléttir grasbalar. Stórgrýtið er úr móbergi sem á uppruna sinn í megineldstöðinni í Dyrfjöllum. Úr Stórurð er mikilfenglegt útsýni, meðal annars á dyrnar í Dyrfjöllum sem er stórbrotin sjón. 

Nokkrar vistgerðir eru á svæðinu sem hafa hátt verndargildi og flokkast sem forgangsvistgerðir. Má þar nefna runnamýravist, starungsmýrarvist, gulstararflóavist, kjarrskógavist, lyngskógavist, kransþörungavötn og hrúðurkarlafjörur. 

Hluti þess svæðis sem lagt er til að verði friðlýst er innan svæðis sem skilgreint hefur verið sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði en talið er að hátt í 40 tegundir fugla verði þar. 

Ýmsan sérstakan gróður er að finna á svæðinu, til að mynda mosann dökklepp sem er sjaldgæf tegund, fléttuna geislabikar sem er válistategund og lyngbúa, súrsmæru og línarfa sem allar eru friðaðar og á válista. 

Á svæðinu út af Unaósi eru tvö selalátur þar sem fjöldi sela hefur farið vaxandi á undanförnum árum. 

Svæðið sem lagt er til að verði friðlýst er afar fjölbreytt með tilliti til nýtingar og ber helst að nefna búskap og ferðamennsku og hvers konar útivist. 

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita sérstæðar jarðmyndanir og landslag. Þá er jafnframt markmið friðlýsingarinnar að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni svæðisins með verndun vistkerfa og stýringu umferðar um svæðið. Friðlýsingin skal stuðla að því að nýting svæðisins fari fram með þeim hætti að ekki sé gengið á gæði landsins. 

Með vernduninni skal tryggt að jarðminjum, landslagsheild, lífríki og ásýnd svæðisins verði ekki spillt og einkenni þess og sérkenni varðveitt þar sem svæðið er sérstætt á landsvísu og skipar mikilvægan sess í vitund þjóðar. 

Tillaga að friðlýsingu verndarsvæðis norðan Dyrfjalla og náttúruvættisins Stórurðar er hluti af átaki í friðlýsingum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. 

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna til er og með 15. janúar 2021. Ábendingum og athugasemdum má skila inn á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
 
Umhverfisstofnun vekur athygli á því að innsendar athugasemdir eru hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhentar þriðja aðila sé þess óskað í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012. 
Frekari upplýsingar veita Hildur Vésteinsdóttir (hildurv@ust.is) og Lára Björnsdóttir (lara.bjornsdottir@umhverfisstofnun.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000. 

Tengd skjöl:

Tillaga að friðlýsingu verndarsvæðis norðan Dyrfjalla og náttúruvættisins Stórurðar
Kort
Hnitaskrá fyrir landslagsverndarsvæði
Hnitaskrá fyrir náttúruvætti
Hnitaskrá fyrir svæði á Hrafnabjörgum

Senda ábendingu

Upplýsingar

Skrár