Umhverfistofnun - Logo

Votlendi við Fitjaá

Umhverfisstofnun hefur vísað tillögu um friðlýsingu votlendissvæðis Fitjaár í Skorradal, sem friðlandi, til umhverfis- og auðlindaráðherra. 

Unnið hefur verið að undirbúningi friðlýsingarinnar á grundvelli átaks í friðlýsingum. Vinna við undirbúning friðlýsingarinnar hófst formlega með skipun samstarfshóps í apríl árið 2019. Í samstarfshópnum áttu sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, Skorradalshrepps, umhverfis- og auðlindaráðneytisins, Skógræktarinnar og Ríkiseigna, auk landeigenda Fitja sem áttu frumkvæðið að friðlýsingunni.
Áform um friðlýsingu svæðisins voru auglýst til kynningar þann 1. nóvember 2019, í samræmi við málsmeðferðarreglur 2. og 3. mgr. 36. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sbr. 2. mgr. 38. gr. laganna. Frestur til að skila ábendingum og athugasemdum var til 3. janúar 2020. Alls bárust athugasemdir frá 8 aðilum. Gerð er grein fyrir athugasemdum og viðbrögðum við þeim í Umsögn um framkomnar athugasemdir við áform um friðland við Fitjaá í Skorradal. 

Umhverfisstofnun kynnti tillögu að friðlýsingu svæðisins þann 18. mars 2020, í samræmi við málsmeðferð 2. mgr. 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Frestur til að senda inn ábendingar og athugasemdir var til 24. júní 2020. Tillagan sem lögð var fram byggði á því samtali sem hafði átt sér stað á vettvangi samstarfshóps og þeim athugasemdum sem áður höfðu borist. Gerð er grein fyrir þeim 13 athugasemdum sem bárust og viðbrögðum við þeim í Greinargerð um framkomnar athugasemdir á kynningartíma tillögu að friðlandi við Fitjaá í Skorradal.

Þann 10. september 2020 vísaði Umhverfisstofnun tillögu að friðlýsingu votlendissvæðis Fitjaár í Skorradal til umhverfis- og auðlindaráðherra, í samræmi við 4. málsl. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Fram kemur að samkomulag um friðlýsingu votlendisins hafi náðst við hlutaðeigandi aðila en tillagan gerir ráð fyrir að votlendissvæðið, 0,88 km2 að stærð, verði friðlýst sem friðland í samræmi við 49. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. 

Tillaga að auglýsingu um friðland við Fitjaá í Skorradal
Kort og hnitaskrá