Umhverfistofnun - Logo

Bessastaðanes

Umhverfisstofnun, í samstarfi við embætti forseta Íslands, Garðabæ, forsætisráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Minjastofnun Íslands, hefur unnið að undirbúningi friðlýsingar Bessastaðaness sem friðlands, í samræmi við 49. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Bessastaðanes er hluti af því svæði sem skráð var sem Álftanes – Skerjafjörður á náttúruverndaráætlun 2004 – 2008 vegna gildis þess fyrir verndun búsvæða fugla. Á svæðinu eru fjölbreyttar fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki sem eru mikilvæg fæðusvæði fugla. Í Lambhúsatjörn er m.a. vistgerðin marhálmsgræður sem einkennist af fínkornóttu seti með beðum af marhálmi, sem hefur takmarkaða útbreiðslu og er mikilvæg fæða fyrir ýmsar andfuglategundir s.s. margæsir. Fuglalíf er fjölbreytt allt árið og er mikilvægur viðkomustaður farfugla og sjaldgæfra fuglategunda. Svæðið er viðkomustaður margæsar og rauðbrystings en auk þess er þar æðarfugl, sendlingur og tildra sem hafa alþjóðlegt verndargildi. Stórir máfar og hávella eru algengir vetrargestir og hundruð tjalda, stelka og lóuþræla koma þar við á fartíma.

Á Bessastaðanesi eru tún og akurlendi en einnig votlendi sem einkennist af vistgerðunum starungsmýravist, gulstaraflóavist og grasengjavist. Língresi- og vingulsvist er á allstórum flákum inni á miðju nesinu og á svokölluðum Rana. Verndargildi vistgerðanna er miðlungs til mjög hás og eru votlendisvistgerðirnar og marhálmsgræður á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Á svæðinu er einnig þjóðhöfðingjasetur.

Svæðið er 4,45 km2.

Tillaga að friðlýsingu svæðisins miðar að því að vernda og varðveita til framtíðar náttúrulegt ástand svæðisins sem búsvæði fugla og mikilvægt viðkomusvæði farfugla. Markmiðið er einnig að vernda líffræðilega fjölbreytni svæðisins, lífríki í fjöru, grunnsævi, hafsbotni og vatnsbol, einkum með tilliti til fugla. Jafnframt er markmiðið að vernda fræðslu- og útivistargildi svæðisins sem felst m.a. í líffræðilegri fjölbreytni, auðugu lífríki, tækifærum til útivistar innan þéttbýlis og nýtingar sem samrýmist verndun búsvæða fugla.

Tillaga að friðlýsingu svæðisins var auglýst til athugasemda í samræmi við 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd þann 22. október 2021 og var frestur til að skila athugasemdum við hana til og með 10. desember 2021.

 Á kynningartíma tillögunnar bárust sjö erindi og er gerð grein fyrir erindunum og afgreiðslu þeirra í greinargerð um innkomnar athugasemdir á kynningartíma.

Tillögu að friðlýsingu svæðisins hefur verið vísað til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til staðfestingar.

Tillaga að friðlýsingu
Kort