Blábjörg

 

Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu sveitarfélagsins Djúpavogshrepps og með samþykki landeiganda jarðarinnar Fagrahvamms að friðlýsa Blábjörg á Berufjarðarströnd í Djúpavogshreppi sem náttúruvætti, skv. 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. 

Blábjörg eru hluti af sambræddu líparíttúfflagi eða flikrubergi, sem hefur verið kallað Berufjarðartúff (Berufjörður acid tuff). Í jarðlagastaflanum er það rétt ofan við svokallað Hólmatindstúff, sem er með surtarbrandi, en nokkuð neðan við bleikt túfflag kennt við Skessu. Berufjarðartúffið má rekja upp með fjöllunum til norðausturs og er t.d. áberandi í Berunestindi. Það hefur ekki fundist sunnan Berufjarðar. Flikrubergið myndaðist í gjóskuflóði í líparítsprengigosi. Það er að mestu úr sambræddum líparítvikri, en basaltbergbrot finnast einnig. Steindin klórít hefur myndast við ummyndun bergsins og gefur því grænleitan blæ.

Hið friðlýsta svæði er 1,49 hektarar að stærð. 2. gr. 

Markmiðið með friðlýsingu Blábjarga sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir sem hafa hátt fræðslu- og vísindagildi. Blábjörg eru aðgengilegur staður til að skoða flikruberg enda vinsæll viðkomustaður ferðamanna.