Umhverfisstofnun og sveitarfélagið Skagaströnd vinna nú að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir fólkvanginn Spákonufellshöfða.
Spákonufellshöfði var friðlýstur árið 1980 með auglýsingu nr. 444/1980 og er 22,5 ha að flatarmáli. Markmiðið með friðlýsingunni er að vernda jarðmyndanir, gróður og dýralíf svæðisins og tryggja svæði til útivistar.
Spákonufellshöfði er vestan við byggðina á Skagaströnd og nær niður að sjó auk þess sem sker úti fyrir höfðanum tilheyra fólkvanginum. Höfðinn er úr stórgerðu stuðlabergsbasalti og er líklega gamall gostappi, sem síðar hefur verið rofinn af jöklum ísaldar. Aðal bergtegundin er gabbró sem myndast við hæga storknun djúpt í jörðu en Höfðinn er í fornri megineldstöð sem var virk fyrir um sjö milljónum ára. Sjófuglar og mófuglar halda til í Höfðanum og á fartíma er nokkuð um umferðarfugla í fjörum, bæði set- og grýttum fjörum. Á svæðinu er strjáll melagróður með algengum tegundum íslenskra plantna og grösugar mýrar. Trjáplöntur hafa verið gróðursettar í klettahlíð sem snýr að byggðinni. Höfðinn er vinsæll til útivistar og víðsýnt er af honum.
Hér fyrir neðan eru hlekkir á verk- og tímaáætlun og samráðsáætlun vegna verkefnisins auk fundargerða. Lögð er áhersla á opið og gagnsætt ferli og eru einstaklingar hvattir til að kynna sér verkefnið og senda inn athugasemdir og ábendingar.
Frekari upplýsingar veita Guðbjörg Gunnarsdóttir gudbjorg@umhverfisstofnun.is og Kristín Ósk Jónasdóttir kristin.jonasdottir@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000.
Tengd skjöl:
Fundargerðir samstarfshóps: